Íslenski boltinn

Þór/KA tapaði stórt fyrir Potsdam út í Þýskalandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Stefán
ÞóR/KA er úr leik í Meistaradeild kvenna í fótbolta eftir sex marka tap, 2-8, í síðari leiknum á móti þýsku meisturunum í Turbine Potsdam í 32 liða úrslitum keppninnar. Leikurinn fór fram í Þýskalandi en Turbine Potsdam vann fyrri leikinn 6-0 á Akureyri og þar með 14-2 samanlagt.

Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði fyrra mark Þór/KA eftir rúmlega hálftíma leik en þetta var fyrsta mark Þór/KA í Evrópukeppni. Diane Caldwell skoraði síðan seinna markið á 75. mínútu.

Turbine Potsdam byrjaði af krafti og var komið í 4-0 eftir aðeins tuttugu mínútna leik. Anja Mittag skoraði tvö markanna (8. og 20. mínútu) en hin gerðu Isabel Kerschowski (2. mínúta) og Patricia Hanebeck (18 mínúta).

Potsdam var því komið í 10-0 samanlagt og það stendi risatap hjá norðankonum. Þór/KA-liðið náði þó aðeins að vinna sig inn í leikinn, Arna Sif Ásgrímsdóttir minnkaði muninn á 34. mínútu og Þór/KA fékk ekki á sig fleiri mörk fram að hálfleik.

Jennifer Zietz (víti á 55. mínútu) og Antonia Göransson (56. mínútu) skoruðu með mínútu millibili í upphafi seinni hálfleiks og aftur náði Þór/KA að bíta frá sér og Diane Caldwell minnkaði muninn á 75. mínútu.

Gígja Harðardóttir varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 78. mínútu og Isabel Kerschowski endaði síðan leikinn eins og hún hóf hann með því að skora. Kerschowski bætti þá við áttunda markinu í uppbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×