Íslenski boltinn

Lagerbäck: Ísland eini kosturinn sem mér bauðst

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lars Lagerbäck, nýráðinn landsliðsþjálfari Íslands, segir að hann hafi ekki verið með neitt annað atvinnutilboð í höndunum þegar að KSÍ kom að máli við sig.

Lagerbäck var einnig í viðræðum við austurríska knattspyrnusambandið en á blaðamannafundi KSÍ sagðist hann ekki vita hvað hann komst langt í því ferli. Á endanum var annar ráðinn í það starf.

„Knattspyrnusamband Íslands var það eina sem bauð mér starf," sagði Lagerbäck þegar hann var spurður hvort að það hafi verið hans fyrsti kostur að taka að sér íslenska starfið.

Hann sat fyrir svörum í höfuðstöðvum KSÍ í dag og má sjá helstu ummæli hans af blaðamannafundinum í myndbandinu hér fyrir ofan. Þar segir hann til að mynda að Ísland sé í áhugaverðum riðli í undankeppni HM 2014.

„Ísland var nokkuð heppið að því leyti að það slapp við helstu stórþjóðir Evrópu. Riðillinn er því nokkuð jafn og mjög áhugaverður," sagði Lagerbäck en ásamt Íslandi eru Noregur, Slóvenía, Sviss, Albanía og Kýpur í riðlinum.

„En öll lið eiga möguleika með góðum undirbúningi og réttri skipulagningu. Hvort að við getum gert nóg til að komast áfram verður svo bara að koma í ljós."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×