Fótbolti

Rossi sleit krossband og verður frá í hálft ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Spænska liðið Villarreal varð fyrir miklu áfalli í gær þegar í ljós kom að sóknarmaðurinn Giuseppe Rossi þarf að fara í aðgerð vegna krossbandsslits í hné og verður hann frá næsta hálfa árið hið minnsta.

Rossi meiddist í 3-0 tapi gegn Real Madrid á miðvikudaginn en hann var tekinn af velli þegar stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfleik.

Það er alveg ljóst að Villarreal mátti ekki við þessu en liðið er í tómum vandræðum í spænsku úrvalsdeildinni. Liðið situr í fallsæti með sjö stig eftir níu leiki. Liðið hefur aðeins unnið einn leik til þessa á tímabilinu.

Ekki gengur mikið betur í Meistaradeildinni en þar er liðið stigalaust eftir þrjá leiki í A-riðli. Liðið tapaði fyrir Manchester City, 2-1, í síðustu viku en liðin mætast öðru sinni í næstu viku.

Rossi er líklega besti leikmaður Villarreal en hann ákvað að halda tryggð við félagið í sumar þrátt fyrir áhuga ýmissa stórliða á borð við Barcelona í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×