Veðbankar spá Green Bay Packers naumum sigri á Pittsburgh Steelers í SuperBowl í kvöld. Það skyldi þó enginn afskrifa hið reynslumikla lið Steelers sem er í sínum þriðja Super Bowl-leik á sex árum.
Þarna mætast tvö af stórveldum NFL-boltans. Félög með mikla hefð og sögu enda unnið 9 titla samtals. Það er vel við hæfi að þessu sögufrægu liði spili þennan leik á Cowboys Stadium þar sem það verður sett áhorfendamet í kvöld.
Von er á um 110.000 manns á völlinn en gamla metið var sett árið 1983 er tæplega 104.000 manns mættu á Rose Bowl-völlinn í Kaliforniu til þess að sjá Washington leggja Miami í Super Bowl.
Liðin mættust síðast í desember árið 2009 og þá vann Steelers, 37-36. Sigurmarkið kom á lokaandartökum leiksins. Steelers hefur samt haft fínt tak á Packers og unnið síðustu þrjá leiki.

Mikið mun mæða á leikstjórnendum liðanna. Ben Roethlisberger, leikstjórnandi Steelers, er að spila í sínum þriðja Super Bowl og getur með sigri komist í góðan hóp leikstjórnanda sem hafa unnið þrjá Super Bowl eða fleiri. Í þeim hópi eru aðeins fjórir menn í dag.
Leikstjórnandi Packers, Aaron Rodgers, er að spila í sinum fyrsta leik en þessi arftaki Brett Favre hjá Packers hefur sprungið út í ár. Það er vel við hæfi að hann sé að koma liðinu í fyrsta sinn í Super Bowl síðan Favre fór með liðið alla leið 1997 árið sem Favre hættir í boltanum.
Það verður mikið um dýrðir fyrir leik sem og í hálfleik er hljómsveitin Black Eyed Peas tekur lagið.
Leikurinn er í beinni útsendingu á ESPN America sem má finna á fjölvarpi Digital Ísland. Hann hefst klukkan 23.30.