Skoðun

Þriðja flokks fólk?

Paul Nikolov skrifar
Lýðræði byggir á frjálsri miðlun upplýsinga. Vissulega er löggjöf hér á landi sem verndar réttindi kvenna af erlendum uppruna, og við getum verið stolt af því að jafnrétti kynjanna er lengra á veg komið á Íslandi en í mörgum öðrum löndum. En lýðræðið bregst þegar konur af erlendum uppruna fá ekki upplýsingar um réttindi sín þegar þær flytja til landsins.

Nýlega hafa komið í ljós mörg dæmi um konur af erlendum uppruna sem hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu maka en vissu ekki að til væru úrræði sem gætu gagnast þeim. Margar þeirra eru hræddar við að vera reknar úr landi ef þær skilja við ofbeldisfullan maka. Það er mikið áhyggjuefni í ljósi þess að konur af erlendum uppruna eiga það sérstaklega á hættu að verða fórnarlömb ofbeldis í nánum samböndum, eins og upplýsingar frá Kvennaathvarfinu sýna.

Velferðarráðuneytið á hrós skilið fyrir að taka nýlega saman bæklinga sem útskýra fyrir konum af erlendum uppruna hver réttindi þeirra eru og útlista þá þjónustu sem er til staðar fyrir þær. En hvers virði er það ef umræddar konur vita ekki einu sinni af þessum upplýsingum? Hafa ber í huga að allt of margar konur af erlendum uppruna eru einangraðar, tala ekki íslensku og mega ekki fara út fyrir hússins dyr án leyfis maka síns. Við megum ekki gera ráð fyrir því að þessar konur sæki sér nauðsynlegar upplýsingar og kynni sér löggjöf um réttindi sín upp á eigin spýtur.

Löggjöf og upplýsingar eru ekki nóg. Núverandi stjórnvöld beita sér kannski meir fyrir jafnrétti kynjanna en tíðkast hefur í sögu Íslands, en þau eiga að gera meira til að tryggja að þær konur sem hingað koma fái nauðsynlegar upplýsingar um rétt sinn og stöðu. Lýðræði og upplýsingar haldast í hendur, og það skiptir sköpum í jafnréttismálum á Íslandi.



+++++++++++++++++

Öðlingurinn 2011 er vitundarvakning. Átakið stendur yfir í mánuð, frá bóndadeginum (21. janúar) til konudagsins (20. febrúar).

Markmið þess er að stuðla að opinni umræðu um jafnrétti kynjanna á Íslandi. Nánar á heimasíðu átaksins, odlingurinn.is.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×