Innlent

Gunnar Rúnar fluttur á Sogn

Erla Hlynsdóttir skrifar
Gunnar Rúnar er enn í gæsluvarðhaldi en hefur verið fluttur af Litla-Hrauni og á Sogn
Gunnar Rúnar er enn í gæsluvarðhaldi en hefur verið fluttur af Litla-Hrauni og á Sogn Mynd: Vilhelm Gunnarsson

Gunnar Rúnar Sigurþórsson, sem játað hefur að hafa orðið Hannesi Þór Helgasyni að bana, var á mánudag fluttur af Litla-Hrauni og á réttargæsludeildina á Sogni. Guðrún Sesselja Arnardóttir, verjandi Gunnars Rúnars, staðfestir þetta í samtali við Vísi.

Gunnar Rúnar er enn í gæsluvarðhaldi en aðalmeðferð í máli hans hefst 7. febrúar.

Tvær geðrannsóknir hafa verið gerðar á Gunnari Rúnari. Niðurstaða þeirra beggja, undirmats og yfirmats, er sú að Gunnar sé ósakhæfur. Endanlegur úrskurður um þetta er þó í höndum dómara.

Spurð um ástæður þess að Gunnar Rúnar er færður á Sogn áður en endanleg niðurstaða um sakhæfi hans liggur fyrir bendir Guðrún Sesselja á að hún hafi óskað eftir því að hann yrði vistaður á réttargeðdeild frekar en í fangelsi. Þá telur hún það hafa skipt máli að bæði undirmat og yfirmat geðlækna var að Gunnar Rúnar væri ekki sakhæfur.

Eins og fréttastofa hefur greint frá var fjölskylda hins myrta mótfallin því að Gunnar Rúnar yrði vistaður á Sogni frekar en á Litla-Hrauni.

Guðrún Sesselja vill ekki tjá sig um líðan Gunnars Rúnars eða hvernig honum líst á að vera kominn á Sogn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×