Körfubolti

Justin Shouse má spila strax með landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse Hefur spilað á Íslandi síðan 2005. Fréttablaðið/vilhelm
Justin Shouse Hefur spilað á Íslandi síðan 2005. Fréttablaðið/vilhelm
Bandarísku körfuboltamennirnir Justin Shouse og Darrell Flake fengu í fyrradag úthlutað íslenskum ríkisborgararétti hjá allsherjanefnd Alþingis. Þeir Shouse og Flake eiga báðir að baki farsælan feril í íslensku úrvalsdeildinni og hefur Shouse verið í hópi bestu leikmanna deildarinnar undanfarin ár. Nú gætu þeir hjálpað íslenska landsliðinu og samkvæmt reglum FIFA má velja þá strax í landsliðið.

„Það eru breyttar reglur frá því sem var. Nú þarf reyndar að sinna pappírsvinnu til FIBA Europe en leikmenn eru löglegir um leið og þeir samþykkja umsóknina. Það þarf ekki að vera ríkisborgari í tvö eða þrjú ár eins og var áður," sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, framkvæmdastjóri KKÍ.

Það má bara vera með einn leikmann af erlendum uppruna í mótum á vegum FIBA og það sama gildi á Norðurlandamótum.

„Þetta er eitthvað sem við munum skoða en þeir eru báðir í Bandaríkjunum og við erum því ekki að hlaupa upp til handa og fóta núna," sagði Friðrik Ingi en nýi landsliðsþjálfarinn, Peter Öqvist, tilkynnti í vikunni 22 manna hóp fyrir Norðurlandamótið í sumar og þar er enginn leikmaður af erlendum uppruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×