Körfubolti

Þór Þorlákshöfn upp í úrvalsdeild karla í körfubolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson er að gera frábæra hluti í Þorlákshöfn.
Benedikt Guðmundsson er að gera frábæra hluti í Þorlákshöfn.
Þór úr Þorlákshöfn tryggði sér í kvöld sæti í Iceland Express deild karla í körfubolta eftir 20 stiga sigur á Valsmönnum, 99-79, í Þorlákshöfn. Þórsliðið er búið að vinna alla fjórtán leiki sína á tímabilinu og ekkert lið getur lengur náð þeim að stigum.

Benedikt Guðmundsson, fyrir þjálfari Íslandsmeistara KR, tók við Þórsliðinu fyrir tímabilið og hefur stýrt þeim upp í úrvalsdeild alveg eins og hann gerði með Fjölnisliðið tímabilið 2003-2004.

Eric James Palm skoraði 33 stig fyrir Þór í kvöld, Grétar Ingi Erlendsson var með 18 stig og Vladimir Bulut skoraði 17 stig og tók 13 fráköst.

Þór Þórlákshöfn hefur nú 28 stig og átta stiga forskot á Þór Akureyri en Akureyringar eiga bara þrjá leiki eftir og geta því aðeins náð 26 stogum.

Þór hefur síðan tíu stiga forskot á Skallagrím og Breiðablik sem eiga bæði fjóra leiki eftir og geta því aðeins náð 26 stigum.

Efsta liðið fer beint upp en næstu fjögur lið taka síðan þátt í úrslitakeppni um hitt sætið. Það er ekki enn ljóst hvaða lið komast í hana því það munar aðeins fjórum stigum á Þór Akureyri í 2. sætinu og Val og FSU sem eru í 5. til 6. sæti.

Þór úr Þorlákshöfn var síðast í úrvalsdeild karla veturinn 2006 til 2007 en liðið féll þá aftur úr deildinni eftir aðeins eitt ár meðal þeirra bestu. Þór var líka í efstu deild 2003-2004 og er því að fara spila sitt þriðja tímabil úrvalsdeild karla á næsta tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×