Íslenski boltinn

Hallbera Guðný spilar í Svíþjóð næsta sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fjölmargar íslenskar knattspyrnukonur hafa spilað í Svíþjóð síðustu ár og Hallbera Guðný er að bætast í þann hóp.
Fjölmargar íslenskar knattspyrnukonur hafa spilað í Svíþjóð síðustu ár og Hallbera Guðný er að bætast í þann hóp. Mynd/Stefán
Hallbera Guðný Gísladóttir hefur fengið tilboð frá þremur liðum í sænsku úrvalsdeildinni og ætlar að taka næstu vikuna til að fara yfir þau. Hún á von á því að taka ákvörðun fyrir áramót og segir að það liggi nokkuð ljóst fyrir að hún sé á leið frá Val.

Hún æfði fyrr í mánuðinum með Örebro, sem Edda Garðarsdóttir og Ólína G. Viðarsdóttir hafa spilað með síðastliðin ár. Hallbera Guðný er þó með tilboð frá tveimur liðum til viðbótar en vill eins og málin standa nú ekki greina frá því hvaða lið um er að ræða.

„Ég tel það nokkuð ljóst að ég er á leiðinni út en ég veit ekki enn hvar ég enda," segir hún.

Hallbera Guðný er 25 ára gamall leikmaður sem getur bæði spilað á vinstri kantinum eða sem vinstri bakvörður. Hún hefur fest sig í sessi í íslenska landsliðinu sem bakvörður og býst við að spila fyrst og fremst sem varnarmaður í Svíþjóð.

„Liðin hafa fyrst og fremst verið að skoða mig sem varnarmann en samt með þeim möguleika að geta spilað líka á kantinum. Þetta er staða sem ég er enn að læra en ég kann vel við hana, sérstaklega ef ég fæ að spila sem sóknarbakvörður. Ég hef mjög gaman af því," segir Hallbera.

Hún segist handviss um að þetta sé rétt skref. „Ég hef verið að gera sama hlutinn í nokkur ár í röð og það verður mikill munur að fara í deild þar sem hver leikur er jafn og spennandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×