Fótbolti

Barcelona áfram í bikarnum þrátt fyrir tap

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi í leiknum í kvöld.
Lionel Messi í leiknum í kvöld. Nordic Photos / AFP
Barcelona tapaði í kvöld sínum fyrsta leik í langan tíma er liðið mátti þola tap gegn Real Betis á útivelli, 3-1, í spænska konungsbikarnum.

Börsungar eru þó komnir áfram í undanúrslit keppninnar þar sem þeir unnu 5-0 sigur á Betis í fyrri viðureign liðanna á Nou Camp.

Margir af lykilmönnum Barcelona fengu hvíld í kvöld en liðið stillti engu að síður upp sterku liði í kvöld. Lionel Messi var til að mynda í byrjunarliðinu og skoraði eina mark Barcelona.

Þá minnkaði hann stöðuna í 2-1 á 38. mínútu. Jorge Molina hafði skorað tvívegis fyrir heimamenn á fyrstu sjö mínútum leiksins og Artoru Arzu skoraði þriðja mark þeirra í lok fyrri hálfleiks.

Síðari hálfleikurinn var markalaus en Messi brenndi af vítaspyrnu á 54. mínútu leiksins.

Meðal þeirra sem voru í byrjunarliði Barcelona í kvöld voru Gabriel Milito, Gerard Pique, Xavi, Javier Mascherano, Seydou Keita, Bojan Krkic og Ibrahim Affelay.

Barcelona mætir Almeria í undanúrslitum en Sevilla mun annað hvort mæta Real Madrid eða Atletico Madrid í hinni undanúrslitaviðureigninni. Real vann fyrri leik liðanna, 3-1, í fjórðungsúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×