Körfubolti

Ármann tapar leiknum 20-0 | Þarf að greiða sekt og allan kostnað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Ármenningar mættu ekki í leik á móti KFÍ í 1. deild karla í körfubolta í gær og voru heimamenn mjög ósáttir með það. Ármenningar vissu fyrir leikinn á móti KFÍ að KKÍ myndi ekki fresta leiknum sem og að þeir myndu tapa honum 20-0 og þurfa greiða sekt og allan kostnað ef þeir mættu ekki til leiks.

Körfuknattleikssambandið var í samskiptum við formann Ármanns alla helgina og það fór ekkert á milli mála að leiknum yrði ekki frestað enda ekkert að færðinni. KKÍ vissi það nógu snemma á sunnudeginum að Ármann ætlaði ekki að mæta í leikinn og því voru dómarar leiksins ekki sendir af stað.

Yfirlýsing frá KKÍ:

Samkvæmt forsvarsmanni Ármanns treystu þeir ekki færðinni, en þeir ætluðu að keyra, og því fóru þeir ekki.

Það var mat mótanefndar eftir að hafa rætt við lögreglu, Vegagerðina og Veðurstofuna að færð og aðstæður væru góðar og því var leiknum ekki frestað.

Ármann tapar leiknum 20-0 fyrir að hafa ekki mætt.



10. grein í reglugerð KKÍ

Félag sem ekki mætir til leiks innan 15 mínútum frá auglýstum leiktíma skal greiða allan kostnað af leiknum vegna dómara, vallar, auglýsinga og ferðalaga mótaðilans og sæta þar að auki sekt, sem nemur öllum ferðakostnaði til viðkomandi leikstaðar en þó aldrei lægri upphæð en kr. 50.000,00 í meistaraflokki en 20.000 í yngri flokkum sem rennur til KKÍ.

Það lið sem mætir ekki til leiks telst hafa tapað leiknum samkvæmt reglum FIBA hverju sinni. Skulu hinir skipuðu dómarar kveðja ritara til sem vitni og gefa skýrslu til KKÍ innan 24 stunda að leikur hafi ekki farið fram og tilgreina ástæðu.

Lið sem mætir ólöglega skipað til leiks og félag sem notar leikmann, þjálfara eða forystumann í leikbanni telst hafa tapað leiknum í samræmi við reglur FIBA hverju sinni.


Tengdar fréttir

Ármann mætti ekki til leiks - Ísfirðingar ósáttir

Ekkert varð af viðureign KFÍ og Ármanns sem fram átti að fara í 1. deild karla í körfuknattleik á Ísafirði í gærkvöld. Á heimasíðu KFÍ kemur fram að um forkastanleg vinnubrögð Ármenninga sé að ræða. Þjálfari Ármanns segir að ekki hafi verið fært vestur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×