Handbolti

Enn einn sigurinn hjá Kiel | Aðalsteinn lagði toppliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Nordic Photos / Getty Images
Kiel vann öruggan sigur á Hüttenberg, 31-20, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Liðið er því enn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar.

Kiel hefur unnið alla nítján leiki sína til þessa á tímabilinu sem er met í þýsku úrvalsdeildinni. Liðið er með sjö stiga forystu á næsta lið, Füchse Berlin.

Aron Pálmarsson er meiddur og spilaði ekki með Kiel í dag. Alfreð Gíslason er þjálfari liðsins. Sigurinn var öruggur en Kiel var með sex marka forystu í hálfleik, 16-10.

Þá var einnig spilað í B-deildinni í dag. Eisenach, lið Aðalsteins Eyjólfssonar, gerði sér lítið fyrir og skellti toppliði Minden á heimavelli, 32-27. Aðalsteinn er nýbúinn að framlengja samning sinn við félagið og hélt upp á það með viðeigandi hætti.

Nordhorn hafði betur gegn Emsdetten, 30-26. Ernir Arnarson skoraði tvö mörk fyrir Emsdetten og Fannar Friðgeirsson eitt.

Arnór Gunnarsson skoraði níu mörk, þar af fjögur af vítalínunni, fyrir Bittenfeld sem tapaði fyrir Bad Schwartau, 29-26. Árni Sigtryggsson komst ekki á blað í liði Bittenfeld.

Emsdetten er í áttunda sæti deildarinnar, Eisenach því tíunda og Bittefeld er í ellfta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×