Handbolti

Óskar Bjarni: Spennandi tækifæri | Hættir líklega hjá landsliðinu eftir ÓL

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Anton
Óskar Bjarni Óskarsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við danska úrvalsdeildarfélagið Viborg og mun taka við liðinu nú í sumar.

Liðið hafnaði í áttunda sæti dönsku úrvalsdeildarinnar og varð þar með síðasta liðið inn í úrslitakeppnina. Óskar Bjarni sagði við Vísi í kvöld að þreifingar hafi verið á milli hans og félagsins í nokkrar vikur.

„Þetta er búið að vera fram og til baka en þetta lá nokkurn veginn fyrir í síðustu viku. Við fjölskyldan ákváðum að kýla á þetta enda spennandi staður og verkefni hjá mér," sagði Óskar Bjarni í kvöld.

Hann þjálfaði í Noregi frá 2000 til 2002 en hefur síðan verið hjá uppeldisfélagi sínu, Val. „Ég var svo sem ekki að rembast við það að komast aftur út en ég var alltaf reiðubúinn að skoða spennandi kosti. Svo kom þetta tækifæri sem ég er mjög spenntur fyrir. Ég hef verið hjá Val í níu ár og því tímabært að breyta til."

„Danska deildin er ein af fjórum bestu deildum heims og því er þetta gott tækifæri fyrir mig."

Óskar Bjarni hefur einnig verið aðstoðarþjálfari Guðmundar Guðmundssonar hjá íslenska landsliðinu en samningar þeirra renna út eftir Ólympíuleikana í sumar - ef Ísland kemst í gegnum undankeppnina sem fer fram nú um páskana.

„Ég mun fara í það verkefni af fullum krafti sem og Ólympíuleikana ef við förum þangað. Eftir það er óvíst hvað tekur við en ég geri þó ekki ráð fyrir því að halda áfram með landsliðinu eftir Ólympíuleikana."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×