Körfubolti

Magnús Gunnarsson: Það á að gefa fjögur stig fyrir spjaldið og ofaní

„Það á að gefa fjögur stig fyrir spjaldið og ofaní," sagði Magnús Þór Gunnarsson stórskytta úr Keflavík eftir 95-87 tapleik liðsins gegn Stjörnunni í átta liða úrslitum Iceland Express deildar karla í körfuknattleik. Magnús setti niður tvær þriggja stiga körfur með stuttu millibili í miðjum öðrum leikhluta og hann var alveg á því að það hafi verið með vilja gert.

Magnús neitaði því að þetta væri þaulæft atriði. „Þegar maður er stíft dekkaður þá verður maður að skjóta aðeins hraðar kannski," sagði Magnús og var harður á því að hann hafi gert þetta viljandi. „Já klárlega, ég reyndi þetta einu sinni í seinni hálfleik en klikkaði," bætti fyrirliði Keflavíkur við.

„Við vorum klaufar að nýta ekki stóru mennina okkar meira. Ég reyndi allt of mikið af vitlausum skotum í stað þess að láta hann (Jarryd Cole) fá boltann. Hann skoraði alltaf þegar hann fékk boltann. Við kíkjum bara á það í næsta leik og sjáum bara til hvað gerist þá. „

„Þeir eru bara búnir að spila harðar en við og þeir skora meira. Þess vegna vinna þeir. En þeir eru bara búnir að vinna okkur einu sinni í þessari keppni. Það er engin pressa á okkur, þeir þurfa líka að vinna á mánudaginn eins og við," sagði Magnús Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×