Handbolti

Guðmundur: Ég er afskaplega ánægður og stoltur

"Ég er afskaplega ánægður og stoltur. Við erum að spila fyrir hönd þjóðarinnar og erum ánægðir að hafa náð þessum stóra áfanga. Fyrri hálfleikurinn hjá okkur var stórkostlegur og lagði hann grunninn að sigrinum. Við spilum frábæran varnarleik sem við höfum stundum náð upp í okkar leik og refsum við þeim grimmilega með hraðaupphlaupsmörkum," sagði Guðmundur Guðmundsson þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik eftir að liðið tryggði sér farseðilinn á ÓL í London með 41-30 sigri gegn Japan í Króatíu í dag.

Guðmundur ræddi við Guðjón Guðmundsson á Stöð 2 sport eftir leikinn:

"Leikurinn á morgun gegn Króötum verður virkilega erfiður. Við ætlum að reyna að undirbúa okkur vel fyrir hann enda er þetta úrslitaleikur um fyrsta sæti riðilsins, þó að við séum komnir áfram. Við ætlum að klára leikinn með sæmd. Þeir eru með meiri breidd en við en við ætlum að gera okkar besta og reyna að koma út sem sigurvegarar. Strákarnir fá því ekkert frí í kvöld, ég er harður húsbóndi," bætti Guðmundur við.

Aðspurður um möguleika Íslands á Ólympíuleiknum í sumar sagði Guðmundur:

"Það er ómögulegt að segja. Við erum háðir því að allir menn séu heilir og skiptir það einnig máli í hvaða riðli við lendum í. Ég er ekki farinn að hugsa svo langt. Við eigum leik á morgun ásamt því að við þurfum að tryggja okkur inn á heimsmeistaramótið. Ég ætla því að bíða með einhverjar pælingar um möguleika okkar á leikunum sjálfum," bætti Guðmundur við.

"Það eru ekki allir sem átta sig á því hversu stór áfangi það er að koma sér inn á Ólympíuleikana. Við erum búnir að tryggja okkur núna inn á leikana í þriðja skiptið í röð og er það frábært. Á leikunum eru öll bestu lið heims og er það heiður að taka þátt í þeim. Íslendingar verða að átta sig á þvi að þeir eiga frábært handboltalandslið og verðum við að styðja vel við bakið á því," sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands, í símaviðtali við Stöð 2 Sport eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×