Körfubolti

Íslenskur körfuboltamaður negldi samherja sinn niður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stórskrýtið atvik átti sér stað í viðureign Augnabliks og Leiknis í 2. deild karla í körfuknattleik síðastliðið föstudagskvöld. Pirraður leikmaður Leiknis spyrnti þá knettinum af fullu afli í samherja sinn.

Um undanúrslitaviðureign í 2. deildinni var að ræða og var leikurinn, sem fram fór í Kórnum, í járnum. Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma en Augnablik sigldi fram úr í framlengingunni.

Undir lok hennar reyndi Sigurður Gíslason þriggja stiga skot. Skotið geigaði og í baráttunni um frákastið tók Sigurður sig til og spyrnti í knöttin af fullu afli. Ekki vildi betur til en svo að liðsfélagi hans, Brynjar Smári Rúnarsson, stóð skammt undan og fékk knöttinn beint í kviðinn.

Líklegt má telja að Sigurður hafi verið í pirraðri kantinum enda gekk hann í burtu án þess að veita liðsfélaga sínum aðstoð sem lá eftir á gólfinu. Heimildir undirritaðs herma þó að Sigurður dauðsjái eftir sparkinu og Brynjar Smári hafi verið fljótur að jafna sig.

Myndatökumennirnir skemmtu sér konunglega yfir því sem fram fór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×