Handbolti

Fyrsti landsleikur Óla Stefáns og Snorra Steins í 296 daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson.
Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson. Mynd/Vilhelm
Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson eru aftur komnir inn í íslenska karlalandsliðið í handbolta og verða í sviðsljósinu í kvöld þegar íslenska landsliðið tekur á móti Norðmönnum í æfingalandsleik í Laugardalshöllinni. Leikurinn hefst klukkan 19.30 og er eini undirbúningsleikur íslenska liðsins fyrir forkeppni Ólympíuleikana sem fer fram í Króatíu um páskana.

Ólafur og Snorri Steinn gáfu ekki kost á sér í íslenska landsliðið á EM í Serbíu í janúar, Ólafur vegna meiðsla og Snorri vegna persónulegra ástæðna en kona hans var að eignast barn á sama tíma. Þeir hafa því ekki verið með í fyrstu ellefu landsleikjum ársins.

Íslenska liðið lék sinn síðasta landsleik á árinu 2011 þegar liðið mætti Austurríki í Laugardalshöllinni 12. júní í lokaleik sínum í undankeppni EM. Ólafur skoraði 7 mörk í þeim leik og Snorri Steinn var með 2 mörk. Síðan þá eru liðnir 296 dagar.

Ólafur mun leika sinn 316. landsleik í kvöld en þetta verður 185. landsleikur Snorra Steins. Samtals hafa þeir skorað vel yfir tvö þúsund mörk fyrir landsliðið, Ólafur 1506 og Snorri Steinn 665.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×