Körfubolti

Stelpurnar unnu þær dönsku í spennuleik - bronsið í höfn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir.
Íslenska kvennalandsliðið vann fimm stiga sigur á Danmörku, 72-67, í þriðja leik sínum á Norðurlandamótinu í körfubolta sem fram fer í Noregi. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenska kvennalandsliðið vinnur tvo leiki á einu Norðurlandamóti en áður höfðu stelpurnar unnið stórsigur á gestgjöfunum.

Íslenska liðið var að spila sinn annan leik í dag en í morgun tapaði liðið stórt fyrir sterku liði Svía. Íslendka liðið mætir Finnlandi í lokaleik sínum á morgun og það gæti verið úrslitaleikur um annað sætið í mótinu en bronsið er í höfn hjá stelpunum. Mótið klárast á sunnnudaginn en íslenska liðið á ekki leik þá.

Íslenska liðið náði mest 14 stiga forskoti í fyrri hálfleik en þær dönsku unnu upp muninn í þeim síðari. Íslensku stelpurnar voru síðan öruggar á vítalínunni í lokin, settu niður öll sex vítin sín á síðustu 22 sekúndum leiksins og lönduðu sögulegum sigri.

Helena Sverrisdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, fór fyrir liðinu eins og áður en hún var með 21 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar í leiknum. Petrúnella Skúladóttir og María Ben Erlingsdóttir skoruðu báðar 11 stig og þær Pálína Gunnlaugsdóttir og Hildur Sigurðardóttir voru með 10 stig.

Íslenska liðið komst í 15-8 í upphafi leiks en Petrúnella var með 9 stig á upphafsmínútum leiksins. Íslenska liðið var síðan 23-14 yfir eftir fyrsta leikhlutann og náði mest 14 stiga forskoti í öðrum leikhluta. Í hálfleik munaði 11 stigum á liðunum, 43-32. Helena var komin með 14 stig í hálfleik en Petrúnella skoraði 11 stig fyrir hlé.

Danska liðið kom sér inn í leikinn með því að skora 9 stig í röð í þriðja leikhluta og vinna hann að lokum 19-9. Íslenska liðið var því aðeins með eins stigs forskot fyrir lokaleikhlutann, 52-51. Helena var líka komin með sína fjórðu villu eftir að hafa fengið á sig ruðning í þriðja skiptið í leiknum.

Íslensku stelpurnar skoruðu sjö fyrstu stig fjóða leikhlutans og voru aftur komnar með átta stiga forskot, 59-51, þegar 7 mínúur voru eftir. Dönsku stelpurnar gáfu ekkert eftir og voru búnar að minnka muninn í eitt stig, 64-63, þegar 2:18 voru eftir af leiknum.

Liðin nýttu ekki næstu sóknir eða ekki fyrr en að María Ben Erlingsdóttir kom Íslandi í 66-63 þegar 38 sekúndur voru eftir. Danir tóku leikhlé og komu muninum niður í eitt stig, 66-65, þegar 26 sekúndur voru eftir af leiknum.

Hildur Sigurðardóttir fékk þá tvö víti, setti þau bæði niður og kom Íslandi í 68-65 þegar aðeins 22 sekúndur voru eftir af leiknum. Danska liðið tók sér ekki langan tíma og var búið að skora eftir sjö sekúndur og koma muninum aftur niður í eitt stig, 68-67. Sverrir Þór Sverrisson, landsliðsþjálfari, tók þá leikhlé þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum.

Helena Sverrisdóttir fékk tvö víti og setti þau bæði niður. Danir tóku aftur leikhlé og nú voru 14 sekúndur eftir af leiknum. Danir klikkuðu á þriggja stiga skoti, Hildur náði frákastinu og setti í framhaldinu niður tvö víti. Með því var íslenskur sigur í höfn.

Ísland- Danmörk 72-67 (43-32)

Stig Íslands: Helena Sverrisdóttir 21 (10 fráköst, 7 stoðsendingar), María Ben Erlingsdóttir 11, Petrúnella Skúladóttir 11, Pálína Gunnlaugsdóttir 10, Hildur Sigurðardóttir 10 (6 fráköst), Margrét Kara Sturludóttir 5, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 2, Hafrún Hálfdánardóttir 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×