Körfubolti

Skotsýning hjá íslensku stelpunum og 27 stiga stórsigur á Noregi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Anton
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta byrjar mjög vel á Norðurlandamótinu í Noregi því Ísland vann 27 stiga sigur á Noregi í opnunarleik mótsins, 82-55, sem jafnframt var fyrsti leikur A-landsliðs kvenna í körfubolta í 999 daga og fyrsti leikur liðsins undir stjórn Sverris Þórs Sverrissonar.

Íslenska liðið gerðu nánast út um leikinn með sannkallaðari skotsýningu í þriðja leikhlutanum þar sem að stelpurnar settu niður sjö þriggja stiga skot og unnu leikhlutann 27-7. Íslenska liðið skoraði alls þrettán þriggja stiga körfur í leiknum.

Helena Sverrisdóttir fór fyrir íslenska liðinu í sínum fyrsta landsleik sem aðalfyrirliði en Helena endaði með 20 stig, 9 fráköst, 6 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Hildur Sigurðardóttir var síðan með 11 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 9 stig.

Petrúnella Skúladóttir skoraði tvo þrista í upphafi leiks og hjálpaði íslenska liðinu að komast í 8-4. Íslenska liðið vann fyrsta leikhlutann 20-16 og náði síðan mest tíu stiga forskoti í öðrum leikhlutanum (31-21). Íslensku stelpurnar leiddu með sex stigum, 37-31, þegar kom að hálfleiknum. Helena Sverrisdóttir skoraði 10 stig í fyrri hálfleiknum (4 fráköst og 4 stoðsendingar) og þær Petrúnella og María Ben Erlingsdóttir voru með 8 stig hvor.

Hildur Sigurðardóttir (2) og Pálína Gunnlaugsdóttir hófu þriðja leikhlutann á því að setja niður þrista og íslenska liðið var komið 13 stigum yfir, 48-35, þegar þriðji leikhlutinn var tæplega hálfnaður. Stelpurnar hittu á endanum úr 7 af 11 þriggja stiga skotum sínum í leikhlutanum, unnu hann 27-7 og voru 26 stigum yfir fyrir fjórða leikhlutann, 64-38.

Fjórði leikhlutinn var formsatriði en íslenska liðið gaf ekkert eftir og Sverrir Þór gat hvílt lykilmenn fyrir átök morgundagsins þar sem íslenska liðið spilar tvo leiki, við Svía og Dani.

Ísland - Noregur 82-55 (37-21)

Stig Íslands: Helena Sverrisdóttir 20 (9 fráköst, 6 stoðsendingar), Hildur Sigurðardóttir 11 (7 fráköst, 5 stoðsendingar), Pálína Gunnlaugsdóttir 9, María Ben Erlingsdóttir 8 (6 frák.), Petrúnella Skúladóttir 8 (6 frák.), Hafrún Hálfdánardóttir 5, Ólöf Helga Pálsdóttir 5, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 4, Margrét Kara Sturludóttir 4 (5 frák.), Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 4 (4 stoðs.),Helga Einarsdóttir 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×