Viðskipti erlent

Bankastjóri Barclays segir af sér

Bob Diamond bankastjóri Barclays bankans hefur sagt upp störfum og hættir hann strax hjá bankanum.

Afsögn Diamond kemur í kjölfar mikils hneyklismáls sem nú er til rannsóknar í Bretlandi en yfirmenn Barclays eru sakaðir um að hafa haft ólögleg áhrif á millibankavexti eða svokallaða libor vexti á fjármálamarkaðinum í London.

Bankinn hefur þegar verið sektaður um 57 milljarða króna vegna málsins. Málið hefur þar að auki kostað stjórnarformann Barclays stöðu sína.

Diamond, sem er sextugur Bandaríkjamaður, mun bera vitni fyrir sérstakri þingnefnd í dag en nefndin hefur það hlutverk að rannsaka þetta hneyksli.

George Osborne fjármálaráðherra Bretlands segir að það hafi verið rétt af Diamond að segja af sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×