Íslenski boltinn

Víkingar höfðu betur gegn Ólsurum | ÍR vann Breiðholtsslaginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Egill Atlason var í liði Víkinga í kvöld.
Egill Atlason var í liði Víkinga í kvöld. Mynd / Valli
Víkingur Reykjavíkur vann kærkominn 2-1 sigur gegn toppliði 1. deildar karla, Víkingi frá Ólafsvík, í viðureign liðanna í Fossvoginum í kvöld. ÍR-ingar lögðu Leiknismenn í Breiðholtsslag og Tindastóll lagði Þrótt.

Leikurinn í Fossvogi í dag var aðeins fimm mínútna gamall þegar Hjörtur Júlíus Hjartarson kom heimamönnum yfir. Sigurður Egill Lárusson kom heimamönnum í 2-0 með marki á 35. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Torfi Karl Ólafsson, lánsmaður frá KR, minnkaði muninn fyrir gestina með marki snemma í síðari hálfleik en nær komust gestirnir ekki. Víkingur vann langþráðan sigur og lyfti sér úr fallsæti með sigrinum.

ÍR vann Breiðholtsslaginn

Guðmundur Gunnar Sveinsson tryggði ÍR-ingum 2-1 sigur á grönnum sínum í Leikni með marki fimm mínútum fyrir leikslok.

Pétur Már Harðarson kom gestunum úr efra Breiðholti yfir með marki á 28. mínútu. Jón Gísli Ström jafnaði hins vegar metin fyrir heimamenn skömmu fyrir leikhlé.

Eftir sigurinn eru ÍR-ingar komnir með 14 stig í deildinni. Leiknismenn eru hins vegar komnir í fallsæti þar sem Víkingur vann sinn leik í kvöld. Liðsmenn Willums Þórs Þórssonar hafa tíu stig líkt og Höttur, sem situr í botnsætinu, en á leik til góða.

Annar sigur Stólanna í röð

Tindastóll batt endi á gott gengi Þróttara í deild sem bikar með 3-1 sigri á Sauðárkróki í kvöld. Ben Eversson, Max Touloute og Fannar Örn Kolbeinsson skoruðu mörk Stólanna á 20 mínútna kafla í síðari hálfleik. Helgi Pétur Magnússon minnkaði muninn fyrir gestina úr vítaspyrnu.

Tindastóll er um miðja deild með 14 stig eftir sigurinn en Þróttarar hafa ellefu stig og eru í bullandi fallbaráttu.

Upplýsingar um markaskorara frá Úrslit.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×