Körfubolti

Strákarnir töpuðu stórt á móti Ólympíuliði Litháa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Öqvist ræðir við Jón Arnór Stefánsson.
Peter Öqvist ræðir við Jón Arnór Stefánsson. Mynd/Fésbókarsíða KKÍ
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta átti fá svör á móti Ólympíuliði Litháa í æfingaleik í Siemens-höllinni í Vilinius í kvöld. Litháen var komið 20 stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann og vann leikinn á endanum með 50 stigum, 101-51.

Íslensku strákarnir réðu ekkert við frábært lið Litháen sem tryggði sér sæti á Ólympíuleikunum á dögunum og ætlar sér stóra hluti í London. Íslenska liðið þarf aftur á móti að sýna mun betri leik þegar liðið mætir Serbíu í Laugardalshöllinni 14. ágúst næstkomandi.

Litháen komst í 13-2, 28-7 og var 30-10 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Litháen var síðan 47-31 yfir í hálfleik eftir að Jón Arnór Stefánsson minnkaði muninn með þriggja stiga körfu í lok annars leikhluta. Jón Arnór var kominn með níu stig í hálfleik.

Litháar skoruðu tólf fyrstu stig seinni hálfleiksins og því löngu orðið ljóst að íslenska liðið átti engin svör við gríðarlega sterku liði Litháen. Munurinn varð á endanum 50 stig, 101-51.

Íslenska liðið tapað með 38 stigum (67-105) og 53 stigum (62-115) þegar þjóðirnar mættust síðast í aðdraganda Ólympíuleikanna í Peking 2008.

Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska liðsins, var stigahæstur með 13 stig og Jón Arnór Stefánsson skoraði 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×