Viðskipti erlent

Styttist í uppgjör Facebook

mynd/AP
Samskiptamiðillinn Facebook mun kynna fyrstu ársfjórðungstölur sínar í vikunni. Verður þetta fyrsta uppgjör fyrirtækisins síðan það var skráð á hlutabréfamarkað í Kauphöllinni í New York fyrir nokkrum vikum.

Líklegt þykir að Facebook hafi tapað þó nokkru á síðasta fjórðungi. Hlutafjárútboð Facebook var það stærsta í sögu Bandaríkjanna en fyrirtækið var metið á um 100 milljarða dollara eða það sem nemur 12.450 milljörðum króna.

En gengi hlutabréfa samskiptasíðunnar hefur fallið síðustu vikur og stóð í 3.580 krónum við lokun markaða á föstudag. Er þetta tæpum 1.200 krónum minna virði en í upphafi var áætlað.

Það verður því seint sagt að skráning Facebook á markað hafi gengið jafn vel og menn vonuðust til. Stjórnendur Facebook þurfa þó ekki að örvænta.

Notendafjöldi síðunnar heldur áfram að aukast í flestum heimshlutum þó svo notendum hafi fækkað örlítið í Evrópu á síðustu mánuðum. Notendurnir eru nú rúmlega 900 milljón talsins.

Helsta vandamál Facebook hefur verið tekjuöflun. Auglýsingasala er helsta tekjulind fyrirtækisins en hingað til hefur því ekki tekist að auglýsa í snjallsímum og spjaldtölvum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×