Íslenski boltinn

Ólsarar í góðum málum eftir sigur á Hetti | Djúpmenn lögðu Stólana

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólsarar eru í góðum málum á toppi 1. deildar.
Ólsarar eru í góðum málum á toppi 1. deildar.
Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði tvö marka Víkings Ólafsvíkur í 3-0 útisigri á Hetti í 1. deild karla í kvöld. Ólsarar hafa fimm stiga forskot á toppi deildarinnar eftir sigurinn.

Guðmundur Steinn skoraði fyrsta markið á 29. mínútu og gestirnir leiddu í hálfleik. Hattarmönnum hefur gengið afar vel að verjast marki sínu á heimavelli í sumar en máttu þó horfa á eftir knettinum í net sitt tvisvar til viðbótar.

Eldar Masic skoraði annað markið á 57. mínútu áður en Guðmundur Hafsteinn innsiglaði sigurinn stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Víkingur Ólafsvík hefur 28 stig í efsta sæti deildarinnar eftir sigurinn. Haukar hafa 23 stig en liðið sækir Þór heim annað kvöld. Fjölnir er í 3. sæti með 22 stig en liðið hefur 2-0 yfir gegn ÍR í leikhléi og útlitið gott hjá Grafarvogspiltum.

Höttur er áfram á botni deildarinnar með tólf stig.

BÍ/Bolungarvík vann dýrmætan 1-0 sigur á Tindastóli á Sauðárkróki. Gunnar Már Elíasson skoraði eina markið eftir hálftímaleik.

Djúpmenn lyftu sér úr fallsæti með sigrinum. Liðið hefur nú sextán stig um miðja deild en aðeins munar sjö stigum á liðinu í 4. sæti og því neðsta. Stöðuna í deildinni má sjá hér.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara frá Úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×