Íslenski boltinn

Ingvar: Þetta var meira í framtíðardraumunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingvar Jónsson.
Ingvar Jónsson. Mynd/Vilhelm
„Ég fékk bara að heyra af þessu í gærkvöldi," sagði Ingvar Jónsson, markvörður Stjörnunnar og nú íslenska landsliðsins eftir að Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, valdi hann í hóp sinn fyrir vináttuleik á móti Færeyjum.

„Það er gríðarlega skemmtilegt að vera valinn í þennan hóp og fá að æfa með öll bestu leikmönnum Íslands," sagði Ingvar.

„Ég hef alltaf stefnt að því að spila með landsliðinu en hef ekkert hugsað um það undanfarið. Þetta var meira í framtíðardraumunum en það er alltaf gaman að komast í hópinn og sjá hvernig þetta er," sagði Ingvar.

„Ég hlakka mikið til að æfa með Gunnleifi og Hannesi og læri vonandi af þeim," sagði Ingvar sem fékk á sig þrjú mörk á móti Fylki á mánudaginn þar sem Lars Lagerbäck og aðstoðarmaður hans voru í stúkunni.

„Ég bjóst ekki við þessu eftir þann leik ekki síst eftir að ég las það að þeir höfðu verið í stúkunni. Það gera allir mistök og maður lærir bara af þeim," sagði Ingvar.

„Þetta er búið að vera nokkuð gott tímabil en ég held að ég eigi enn eftir að toppa. Ég hef samt verið nokkuð stöðugur," sagði Ingvar og hann kann vel við sig í Stjörnuliðinu.

„Við erum svona "all in" lið eins og margir segja og hugsum aðallega um sóknina. Það er alltaf gaman á leikjum hjá okkur og alltaf nóg að gera hjá mér. Ég nýt þess að spila með Stjörnunni," sagði Ingvar en framundan er undanúrslitaleikur í Borgunarbikarnum á móti Þrótti í kvöld.

„Það er mikilvægur leikur í kvöld. Það væri ekki leiðinlegt að geta haldið upp á landsliðssætið með því að komast í bikarúrslitin. Það er stór dagur í sögu Stjörnunnar í dag og við erum í algjöru dauðafæri að komast í úrslitaleikinn. Vonandi klárum við það dæmi í kvöld," sagði Ingvar.

Leikur Stjörnunnar og Þróttar verður í beinni á Stöð 2 Sport en sigurvegarinn tryggir sér sæti í bikarúrslitaleik karla í fyrsta sinn í sögu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×