Handbolti

Ekstra Bladet: Mikkel Hansen verður liðsfélagi Róberts og Ásgeirs í París

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen í leik með danska landsliðinu á Ólympíuleikunum í London.
Mikkel Hansen í leik með danska landsliðinu á Ólympíuleikunum í London. Mynd/Nordic Photos/Getty
Danska stórskyttan Mikkel Hansen mun að öllum líkindum spila í franska boltanum í vetur en hann er eins og aðrir leikmenn AG kaupmannahafnar að leita sér að nýju félagi eftir að AG fór á hausinn á meðan Ólympíuleikunum stóð.

Ekstra Bladet hefur heimildir fyrir því að Mikkel Hansen sé við það að skrifa undir hjá franska liðinu Paris Handball og það sé bara formsatriði að skrifa undir samninginn. Frakkarnir hafa verið duglegir að safna heimsklassaleikmönnum í sumar en liðið hefur olíumilljarðamæringa frá Katar að baki sér og er til alls líklegt í vetur.

Mikkel var valinn besti handboltamaður heims árið 2011 og fór mikinn með AG-liðinu á síðustu leiktíð. Það er ljóst að koma hans mun styrkja franska liðið gríðarlega mikið.

Íslensku landsliðsmennirnir Róbert Gunnarsson og Ásgeir Þór Hallgrímsson sömdu við Parísar-liðið fyrr í sumar og frönsku Ólympíumeistararnir Luc Abalo, Didier Dinart og Samuel Honrubia munu líka allir spila í París í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×