Íslenski boltinn

Þórsarar upp í annað sætið - Chijindu með bæði mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chukwudi Chijindu.
Chukwudi Chijindu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Þórsarar eru komnir upp í annað sætið í 1. deild karla í fótbolta eftir 2-1 sigur á Víkingum í Ólafsvík í dag en Ólafvíkur-Víkingar eru engu að síður með tveggja stiga forskot á toppnum. Þórsarar eiga leik inni og eru í góðum málum í baráttu sinni fyrir að endurheimta sæti sitt í Pepsi-deildinni.

Chukwudi Chijindu skoraði bæði mörk Þórsara á Ólafsvík í dag og hefur þar með skorað 4 mörk í fyrstu 3 leikjum sínum með norðanliðinu. Chukwudi Chijindu er fyrrum leikmaður í bandarísku atvinnumannadeildinni en kom til Þórs í síðasta mánuði.

Chijindu skoraði sigurmarkið á móti Hetti í síðasta leik og fyrra markið í 2-1 sigri á Haukum þegar hann klæddist Þórspeysunni í fyrsta skiptið. Hann hefur því verið á skotskónum í öllum þremur leikjunum.

BÍ/Bolungarvík hoppaði upp í sjöunda sæti deildarinnar eftir 3-1 sigur á botnliði Hattar. Höttur frá Egilsstöðum er nú með 12 stig úr 15 leikjum og er tveimur stigum á eftir næstu liðum sem eru Breiðholtsliðin ÍR og Leiknir.

Úrslit og markaskorarar í 1. deild karla í dag:

BÍ/Bolungarvík - Höttur 3-1

0-1 Högni Helgason (14.), 1-1 Andri Rúnar Bjarnason (29.), 2-1 Mark Tubæk (39.), 3-1 Mark Tubæk, víti (79.)

Víkingur Ólafsvík - Þór 1-2

0-1 Chukwudi Chijindu (29.), 0-2 Chukwudi Chijindu (35.), 1-2 Torfi Karl Ólafsson (86.)

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af vefsíðunni úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×