Körfubolti

Feðgar stjórna öllu hjá eistneska landsliðinu - spila í Höllinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiit Sokk, þjálfari eistneska landsliðsins, varð Ólympíumeistari með Sovetríkjunum 1988. Hér er hann lengst til vinstri á myndinni.
Tiit Sokk, þjálfari eistneska landsliðsins, varð Ólympíumeistari með Sovetríkjunum 1988. Hér er hann lengst til vinstri á myndinni. Mynd/Nordic Photos/Getty
Íslenska körfuboltalandsliðið tekur á móti Eistlandi í Laugardalshöllinni klukkan 19.15 í kvöld en þetta er fimmti leikur liðsins af tíu í undankeppni Evrópumótsins. Eftir leikinn í kvöld hefur íslenska landsliðið mætt öllum þjóðunum fimm sem eru með strákunum okkar í riðli. Það vekur athygli að feðgar eru í stóru hlutverki í landsliði Eistlendinga.

Eistar hafa unnið 2 af 4 leikjum sínum í riðlinum til þess en þeir komu mörgum á óvart með því að vinna Ísrael á útivelli í 2. umferðinni eftir að hafa unnið Slóvakíu í fyrsta leik. Eistlendingar hafa tapað síðustu tveimur leikjum sínum á móti Svartfjallalandi og Serbíu.

Tiit Sokk er þjálfari Eistlands og synir hans, Tanel og Sten-Timmu, eru aðal- og varaleikstjórnandi liðsins. Það er því óhætt að segja að öll stjórnun eistneska landsliðsins sé í sömu fjölskyldunni.

Tiit Sokk var á sínum tíma líka leikstjórnandi og skoraði meðal annars 8 stig að meðaltali í leik með sovéska landsliðinu sem vann Ólympíugullið í Seoul 1988.

Sten-Timmu Sokk (fæddur 1989) er fjórum árum yngri en bróður sinn en hann er samt aðalleikstjórnandi landsliðsins. Sten-Timmu er með 9,0 stig og 5,8 stoðsendingar að meðaltali á 30,5 mínútum í fyrstu fjórum leikjum Eistlands í undankeppninni. Tanel Sokk (fæddur 1985) er með 6,3 stig og 1,3 stoðsendingu að meðaltali á 15,8 mínútum í undankeppninni.

Þeir Sten-Timmu og Tanel spila ekki með sama liðinu í eistnesku deildinni og hefur Tanel unnið titilinn tvö ár í röð með BC Kalev/Cramo á meðan að Sten-Timmu og félagar í Tartu Ülikool hafa þurft að sætta sig við annað sætið í bæði skiptin.

Tanel var kostinn besti leikmaður úrslitanna í vor eftir 4-0 sigur á liði bróður síns í lokaúrslitunum. Sten-Timmu Sokk vann aftur á móti titilinn með Tartu Ülikool vorið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×