Viðskipti innlent

Segir óráð að afnema gjaldeyrishöftin hratt

Magnús Halldórsson skrifar
Íslenska hagkerfið myndi ekki lifa það af ef gjaldeyrishöftum yrði aflétt hratt, í stað þess að gera það hægar með það að markmiði að aflétta höftunum innan þriggja ára. Þetta segir breski bankamaðurinn Robert Parker. Hann segir að hraða þurfi slitum á gömlu bönkunum, þar sem það myndi auka traust á hagkerfinu.

Robert Parker er aðalráðgjafi svissneska risabankans Credit Suisse, en hann er gestur í nýjasta þætti Klinksins, spjallþætti um viðskipti og efnahagsmál. Parker segir að Ísland geti ekki annað en afnumið gjaldeyrishöftin hægt og bítandi, annað sé óráð. Óraunhæft sé annað en að ætla sér næstu þrjú ár til þess.

„Ég tel að skynsamlegast væri að afnema gjaldeyrishöftin hægt og rólega á löngu tímabili, til dæmis tveim til þrem árum. Ég held að það yrðu alvarleg efnahagsleg og markaðsleg mistök ef þið beittuð skyndilega leifturaðferðinni. Hvað felst í leifturaðferðinni? Það væri ef þið tillkynntuð á morgun að engin höft væru til staðar," sagði Parker.

Þá segir Parker að mikilvægt sé að ljúka sem allra fyrst vinnu við slit á þrotabúum gömlu bankanna, með nauðasamningum, eða endurskipulagningu á eignum sem þar eru og sölu þeirra.

„Það hefur verið unnið vel en ég vona að innan árs, eða í mesta lagi tveggja ára, verði gengið frá sölu og afskriftum með nauðasamningum við lánadrottna í tengslum við slitameðferð þrotabúa gömlu bankanna," sagði Parker.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×