Handbolti

Stelpurnar töpuðu með sjö mörkum á móti Svíum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Valli
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tapaði með sjö mörkum, 16-23, í fyrri æfingaleik sínum á móti sænska landsliðinu en þjóðirnar mættust í Sparbankshallen í Varberg í kvöld. Sænska liðið er sterkt og var með á Ólympíuleikunum í London fyrr í haust.

Svíar hafa unnið alla fjórtán landsleiki þjóðanna frá upphafi en þær sænsku höfðu unnið tvo nauma sigra í tveimur æfingaleikjum á Íslandi í lok maí 2011.

Íslenska liðið byrjaði vel og var 4-3 yfir eftir ellefu mínútur. Sænska liðið skoraði þá sex mörk í röð og tók frumkvæðið í leiknum. Þær sænsku voru síðan 13-9 yfir í hálfleik.

Báðar þjóðir eru að undirbúa sig fyrir EM í Serbíu í desember þar sem Svíar eru í riðli með Danmörku, Makedóníu og Frakklandi en íslensku stelpurnar eru í riðli með Svartfjallalandi, Rúmeníu og Rússlandi.



Mörk Íslands í leiknum skoruðu: Karen Knútsdóttir 3, Stella Sigurðardóttir 3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 2, Rut Jónsdóttir 2, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 2, Dagný Skúladóttir 2, Ramune Pekarskyte 1 og Hanna G. Stefánsdóttir 1.
Í markinu varði Guðný Jenný Ásmundsdóttir 15 bolta.
Liðin mætast aftur á morgun í síðari leik liðanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×