Viðskipti erlent

Stærstu tölvuleikir allra tíma takast á

Það er sannarlega skammt stórra högga á milli á tölvuleikjamarkaðinum. Tveir stærstu tölvuleikir allra tíma berjast nú um hylli spilara.

Skotleikurinn Call of Duty: Black Ops 2 fór í almenna sölu í gær og útlit er fyrir að hann muni slá sölumet forvera síns. Black Ops kom á markað árið 2010. Á innan við viku halaði tölvuleikurinn inn rúmlega 650 milljónum dollara eða tæpum 84 milljörðum króna.

Á heimsvísu hefur tölvuleikjaiðnaðinum vaxið ásmegin undanfarin ár. Engu að síður voru heldur neikvæð teikn á lofti. Á síðustu mánuðum hefur sala á tölvuleikjum dregist heldur saman. Þannig féll sala á tölvuleikjum um 25 prósent á síðasta ársfjórðungi í Bandaríkjunum.

Tölvuleikjaframleiðendur geta þó tekið gleði sína á ný enda benda fyrstu tölur til að Black Ops 2 muni ráða lögum og lofum á markaðinum næstu vikur.

Call of Duty tölvuleikjaröðin er sem fyrr í samkeppni við skotleikinn Halo sem framleiddur er af Microsoft.

Halo 4 kom á markað í síðustu viku. Líklegt þykir að leikurinn hafi slegið met kvikmyndarinnar Harry Potter og Dauðadjásnin, Hluti II, yfir stærstu frumsýningarhelgi í afþreyingarbransanum. Þannig hefur Halo 4 halað inn tæpum 40 milljörðum á nokkrum dögum.

Hægt er að sjá brot út Halo 4 hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×