Körfubolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: KR - Grindavík 80-87

Jón Júlíus Karlsson í DHL-höllinni skrifar
mynd/vilhelm
Grindavík vann góðan útisigur gegn KR í áttundu umferð í Dominos-deildar karla í körfuknattleik, 80-87. Leikurinn var jafn og spennandi en gestirnir úr Grindavík sigu frammúr í lokaleikhlutanum og náðu í sinn sjötta sigur á leiktíðinni.

Leikurinn byrjaði fjörlega og skiptust liðin á að skora. Staðan var jöfn í eftir fyrsta leikhluta 22-22. Grindvíkingar náðu að mjaka sér í forystu í öðrum leikhluta sem þeir unnu með sex stigum. Staðan í hálfleik 41-47. Aaroun Broussard var líflegur í kvöld og var kominn með 13 stig í hálfleik. Kristófer Acox var einnig öflugur undir körfunni lengst af í kvöld og var með 10 stig í fyrri hálfleik.

KR-ingar hafa stillt að mestu upp íslensku liði í vetur og hafa lítið notað erlenda leikmenn það sem af er þessu keppnistímabili. Keegan Bell vermdi að mestu bekkinn í kvöld og skilaði litlu til liðsins. Grindvíkingar leikar hins vegar með tvo öfluga erlenda leikmenn og það sýndi sig í kvöld. Þrátt fyrir að Sigurður Þorsteinsson væri kominn í villuvandræði strax í upphafi þriðja leikhluta með fjórar villur þá leiddu gestirnir leikinn með 11 stigum fyrir lokaleikhlutann, 57-68.

Grindvíkingar héldu velli í lokaleikhlutanum þrátt fyrir að KR hefði sótt að þeim til að byrja með. Eftir að Finnur Atli Magnússon fór af velli með fimm villur misstu KR-ingar vindinn úr seglum sínum. Endaspretturinn var hins vegar nokkuð óvænt spennandi eftir að Helgi Magnússon setti niður tvo mikilvæga þrista. Það var hins vegar of lítið, of seint. Grindvíkingar sigldu sigrinum í hús og lokatölur urðu 80-87.

Helgi Magnússon var atkvæðamestur í liði KR með 20 stig. Kristófer Acox og Martin Hermannson komu næstir með 15 stig. Aaron Broussard var með 27 stig fyrir Grindavík og Samuel Zeglinski kom þar á eftir með 23 stig. Eftir leiki kvöldsins eru fjögur lið jöfn á toppnum með 12 stig og Grindavík þar á meðal. KR er hins vegar um miðja deild með 8 stig.

Þorleifur: „Hefðum rúllað yfir KR á góðum degi"

„Ég er sáttur með þennan sigur og mikilvægt að vinna en við vorum hreint út sagt arfaslakir," sagði fyrirliði Grindavíkur, Þorleifur Ólafsson. „Það er hálf skrýtið að við skulum hafa unnið þennan leik. Það er hins vegar mikilvægt að vinna alla leiki og sérstaklega þegar það líður á tímabilið."

„Það er alls ekki sjálfgefið að vinna á útivelli á móti KR og því er þetta mjög góður sigur. Mér fannst við hins vegar bara lélegir í kvöld og mjög mikið sem við getum bætt. Á góðum degi þá hefðum við rúllað yfir KR."

Grindvíkingar voru illviðráðanlegir á síðasta tímabili en taktinn hefur stundum vatnað hjá liðinu í vetur. Þorleifur hefur ekki áhyggjur. „Það er ýmislegt sem við þurfum að skerpa á í varnarleiknum og líka í sókninni. Við erum ekki að láta boltann ganga allan tímann og dettum stundum í einstaklingsframtak. Það hafa verið margar breytingar hjá liðinu í vetur og auðvitað eðlilegt að það taki tíma að finna sama takt og í fyrra," sagði Þorleifur að lokum.

Helgi Magnúss.: „Fannst við vera með þennan leik"

„Ég er mjög svekktur. Við viljum aldrei tapa og sérstaklega ekki á heimavelli," segir Helgi Magnússon, þjálfari KR eftir tap liðsins gegn Grindavík í kvöld. „Ég hafði það á tilfinningunni að við værum með þennan leik. Það voru smáatriði sem klikkuðu hér og þar sem gáfu Grindvíkingum opin þriggja stiga skot eða sniðskot. Við verðum að laga það."

„Við erum komnir með fjögur töp á tímabilinu en ef við hefðum unnið þennan leik þá værum við í öðru sæti. Við erum ekki langt frá toppbaráttunni en vitum að við verðum að gera betur. Við erum að spila vel en erum að klikka á smáatriðum varnarlega sem hefur reynst okkur dýrkeypt."

KR-liðið hefur vakið athygli í vetur fyrir að spila að nær öllu leyti á uppöldum leikmönnum. Frammistaða erlenda leikmanns KR í kvöld, Keegan Bell, var mjög slök en hann skoraði ekki stig. Helgi segir að KR-liðið feli sig ekki á bakvið útlendingamál en nýr erlendur leikmaður muni detta inn þegar félagaskiptaglugginn opnar.

„Þetta er okkar lið og við eigum kanaígildi inni. Við erum drullugóðir þó við spilum eiginlega bara á íslenskum leikmönnum. Við munum bæta við okkur erlendum leikmanni í janúar þegar glugginn opnar. Við erum að skoða í kringum okkur og vonandi finnum við einhvern mjög góðan."

KR-Grindavík 80-87 (22-22, 19-25, 16-21, 23-19)

KR: Helgi Már Magnússon 20/8 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 16/4 fráköst, Kristófer Acox 15/12 fráköst, Martin Hermannsson 15/4 fráköst, Finnur Atli Magnusson 10/8 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 4.

Grindavík: Aaron Broussard 27/6 fráköst, Samuel Zeglinski 23/7 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/6 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 10/6 fráköst, Þorleifur Ólafsson 8, Davíð Ingi Bustion 4, Jóhann Árni Ólafsson 3.



Bein textalýsing Vísis:

40 min: Helgi Magnússon var atkvæðamestur í liði KR með 20 stig. Kristófer Acox og Martin Hermannson komu næstir með 15 stig. Aaron Broussard var með 27 stig fyrir Grindavík og Samuel Zeglinski kom þar á eftir með 23 stig.

40 min: Leikurinn er úti. Lokatölur 80-87.

39 min: Kristófer Acox setti niður magnað troðslu og svo vann KR boltann strax í næstu sókn. Það hleypti smá lífi í leikinn.

39 min: Grindavík leiðir 50-0 í stigum frá erlendum leikmönnum.

39 min: KR tók skemmtilegan kafla og minnkaði muninn niður í sex stig. Það er hins vegar aðeins 16 sekúndur eftir og nú 8 stiga munur eftir að Zeglinski setti niður tvö víti.

39 min: Helgi Magnússon skorar þrist fyrir KR og svo Martin Hermannson skömmu síðar. Það virðist hins vegar vera of lítið, of stint. Staðan 75-84.

38 min: Grindvíkingar bæta við og leiða nú 67-80. KR tekur leikhlé í þeirri von að ná að breyta leiknum sér í vil. Grindvíkingar eru mun sterkari og hefur Aaron Broussard leikið sérstaklega vel, með 27 stig. Helgi Magnússon kominn með 17 hjá KR.

37 min: Grindvíkingar virðast líklegri til að sigla þessu í hús. Staðan er 67-77 þegar tæpar þrjár mínútur eru eftir.

36 min: Finnur Atli Magnússon fær dæmda á sig sóknarvillu sem er hans fimmta villa í leiknum. Hans þátttöku í leiknum er lokið. Skömmu síðar fékk Sigurður Þorsteinsson einnig dæmda á sig sína fimmtu villu og fór af velli. Staðan 65-75.

35 min: Boussard skorar þrist fyrir Grindavík sem eru aftur búnir að ná undirtökunum í leiknum. Staðan 65-75 þegar 05:24 eru á klukkunni. KR tekur leikhlé.

34 min: Finnur Atli Magnússon er kominn með fjórar villur hjá KR.

33 min: Brynjar Þór er að stíga upp í liði KR sem er búið að minnka muninn niður í 5 stig. Staðan 65-70.

32 min: KR verður að leika vel til að ná koma sér aftur inn í leikinn. Staðan er 61-70 þegar 8 mínútur eru eftir.

30 min: Keegan Bell, erlendi leikmaður KR, hefur átt tíðindalítinn leik. Hann er kominn með nákvæmlega 0 stig í leiknum.

30 min: Grindvíkingar skiptu í annan gír þegar skammt var eftir í þriðja leikhluta og leiða nú leikinn með 11 stigum. Staðan er 57-68.

29 min: Ómar Sævarsson hjá Grindavík tók svaðalegt blokk á Brynjar Þór Björnsson. Það gladdi stuðningsmenn Grindavíkur.

29 min: Grindvíkingar ná fínum spretti og eiga boltann þegar lítið er eftir. 57-65.

28. min: Hvorugt liðið ætlar að stinga af í kvöld. Leikurinn er mjög jafn. 57-60.

26 min: Staðan er 54-58 fyrir Grindavík þegar KR tekur leikhlé. Leikurinn er hraður og skemmtilegur. Talsverður fjöldi áhorfenda er í stúkunni sem styðja lið sín vel áfram. Sigurbjörn Dagbjartsson hefur farið mikinn í stúkunni hjá Grindavík.

25 min: Liðin eru að brjóta talsvert þessa stundina. Kristófer og Finnur eru komnir með þrjár villur hjá KR en Sigurður Þorsteinsson er sá eini hjá Grindavík sem er í villvandræðum með 4 villur.

24 min: Hinn feikilega efnilegi leikstjórnandi í liði KR, Marin Hermannson, fíflar varnarmenn Grindavíkur og skorar auðvelda körfu. Hann er kominn með 6 stig. Staðan 47-51.

23 min: Kristófer Acox hefur átt fínan leik fyrir KR og bætti við enn einni troðslunni eftir að KR stal boltanum.

22 min: Sigurður Þorsteinsson er kominn með fjórar villur og er kældur. Klaufalegt að vera kominn með svona margar villur snemma í þriðja leikhluta.

22 min: Samuel Zeglinski skorar þrist fyrir Grindavík. Staðan 43-50.

20 min: Aaron Broussard er stigahæstur fyrir Grindavík með 13 stig og Sigurður Þorsteinsson með 12 stig. Hjá KR eru þeir Helgi Magnússon og Kristófer Acox með 10 stig.

20 min: Grindvíkingar tóku síðustu sókn annars leikhluta og skoraði Samuel Zeglinski þrist áður þegar þrjár sekúndur voru eftir. Staðan 41-47 fyrir Grindavík í hálfleik.

19 min: Grindvíkingar eru að hitta vel fyrir utan þriggja stiga línuna. Jóhann Árni Ólafsson skutlar nú niður einum þrist. Staðan 40-44.

18. min: Þorleifur Ólafsson kemur Grindavík aftur yfir með þrist áður en Martin Hermannson minnkar muninn fyrir KR. Staðan 38-41.

17 min: Sigurður Þorsteinssson hefur verið akvæðamikilli undir körfunni fyrir Grindvíkinga og er kominn með 10 stig. Hann jafnar leikinn í 36-36.

16 min: Staðan er 36-34 fyrir KR þegar fjórar mínútur eru eftir.

15 min: Aftur er Acox með troðslu. Staðan 32-33. Grindvíkingar taka þá leikhlé til að skerpa á sínum leik.

14 min: Kristófer Acox skorar 4 stig í röð, seinni körfuna með fíngerði troðslu. 28-31.

13 min: Grindvíkingar læðast fram úr. Staðan er 24-29.

12 min: Brynjar Þór Björnsson treður fyrir KR. Laga þurfti körfuna sem hallaði eftir góða troðslu Brynjars. Grindvíkingar tóku að sér að laga körfuna.

12 min: Grindvíkingar skora fyrstu stig annars leikhluta. Það gerir Davíð Bustion.

10 min: Grindvíkingar jafna leikinn í 22-22 áður en fyrsti leikhluti er úti. KR átti síðustu sóknina en náði ekki að skora.

9 min: Helgi Magnússon kemur með vænan þrist og kemur sínum mönnum í KR yfir, 22-20.

9 min: KR-ingar taka fína rispu og Brynjar Þór jafnar leikinn í 19-19 með þrist.

7 min: Keegan Bell, erlendi leikmaður KR, er kominn inn á völlinn. KR-ingar hafa verið duglegir að byrja leiki með íslenska leikmenn.

7 min: Aaron Broussard er ekki beint að finna sig í vítaskotunum. Er búinn að klúðra 3 af 4 skotum. Staðan núna er 12-19.

6 min: Grindvíkingar komast í 8-14 sem er ekki að skapi KR-inga sem grípa til þess ráðs að taka leikhlé. Aaron Broussard og Þorleifur Ólafsson eru komnir með 5 stig fyrir Grindavík.

5 min: Grindvíkingar eru betri á fyrstu mínútunum. Staðan 8-12.

4 min: Liðin eru ekki að hitta neitt sérstaklega vel. Þorleifur Ólafsson skorar hins vegar fyrsta þrist kvöldsins fyrir Grindavík. Staðan 6-9.

2 min 4-4: Leikurinn fer ágætlega af stað. Liðin skiptast á að skora.

1 min: Þorleifur Ólafsson skoraði fyrstu stig kvöldsins, staðan 0-2.

0 min: Leikurinn er hafinn. KR vinnur uppkastið.

0 min: Það eru þeir Kristinn Óskarsson, Einar Þór Skarphéðinsson og Georg Andersen sem dæma leikinn í kvöld. Kristinn Óskarsson gerði allt vitlaust í Íslandsmótinu í golfi í sumar og var mjög óvænt í toppbaráttunni. Frammistöðu hans í því móti ætti að gefa út á DVD. Hann var ákveðinn á pútternum í því móti. Besti körfuboltadómari landsins vilja margir meina.

0 min: Leikir þessa liða hafa í gegnum tíðina verið æsispennandi. Skemmst er að minnast ótrúlegs úrslitaeinvígis þessara liða um Íslandsmeistaratitilinn árið 2009 þegar KR varð Íslandsmeistari eftir sigur í oddaleik. Á síðustu leiktíð vann Grindavík báða leiki þessara liða í deildinni en KR sló Grindavík út í 16-liða úrslitum í bkarnum.

0 min: Fólk er farið að streyma í hús fyrir þennan stórleik KR og Grindavíkur í DHL-Höllinni. Ungir peyjar í yngriflokkastarfi KR hafa tekið sér það hlutverk að vera klappsveinar í kvöld. Það er vel til fundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×