Viðskipti erlent

Stofnandi IKEA sagður auðugasti maður heimsins

Á árlegum lista um auðugustu einstaklinganna í Svíþjóð kemur fram að Ingvar Kamprad stofnandi IKEA telst nú auðugasti maður heimsins.

Það er tímaritið Veckans Affärer sem gefur út þennan lista. Á honum kemur fram að auður Kamprad er metinn á um 500 milljarða sænskra króna eða hina stjarnfræðilegu upphæð 9.500 milljarða króna.

Fjallað er um málið á vefsíðunni business.dk en þar er þess getið að á sambærilegum lista yfir auðugustu menn heimsins sem Bloomberg tók nýlega saman var Kamprad í fimmta sæti og þar var auður hans metinn á nærri helmingi lægri upphæð eða 275 milljarða sænskra króna.

Á lista sænska tímaritsins er auður Kamprad sagður vera um 20 milljörðum sænskra króna meiri en Carlos Slim frá Mexíkó sem hingað til hefur verið talinn auðugasti maður heimsins.

Milljarðamæringum í Svíþjóð fjölgar um 11 frá því í fyrra og eru þeir orðnir 119 talsins í ár.

Nýtt nafn er að finna meðal þeirra sem eru í tíu efstu sætunum á sænska auðmannalistanum. Þar er raunar um danska konu að ræða eða Mærsk erfingjann Anne Mærsk McKinney Uggla. Auður hennar er metin á 32 milljarða sænskra króna eða rúmlega 600 milljarða króna sem dugir henni í áttunda sætið á listanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×