Erlent

Tókst ekki að stöðva lestina í tæka tíð

Bjargað úr flakinu Slökkviliðsmenn bjarga særðum lestarfarþega úr flaki lestarinnar. 49 höfðu látist í gærkvöldi og yfir 600 látist.
FRéttablaðið/AP
Bjargað úr flakinu Slökkviliðsmenn bjarga særðum lestarfarþega úr flaki lestarinnar. 49 höfðu látist í gærkvöldi og yfir 600 látist. FRéttablaðið/AP
Að minnsta kosti 49 létust og á sjöunda hundrað manna slösuðust í lestarslysi í gærmorgun í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu. Eitt barn er meðal hinna látnu. Lestin kom á of miklum hraða inn á lestarstöðina Once á háannatíma og lenti af miklum krafti á fyrirstöðu við enda lestarteinanna.

Mestar skemmdir urðu á fremsta vagni lestarinnar, en þar hafði fjöldi farþega safnast saman til að komast sem fyrst út á stöðinni. Miklar skemmdir urðu einnig á fleiri vögnum. Rúður splundruðust og efri hluti sumra vagnanna klofnaði frá neðri hlutanum. Einn vagnanna þrýstist sex metra inn í næsta vagn á undan.

„Fólk er ennþá innilokað, lifandi fólk og kannski hafa margir dáið," sagði J.P. Schiavi, samgönguráðherra Argentínu, við fréttamenn stuttu eftir að slysið varð.

Lestarstjórinn var fluttur á sjúkrahús og ekki reyndist unnt að ræða við hann strax.

Ekki er vitað hvað olli slysinu. „Eftir því sem við best vitum þá virkuðu bremsurnar vel á fyrri lestarstöðvum," sagði Ruben Sobrero, verkalýðsleiðtogi lestarstarfsmanna.

Þetta er mannskæðasta lestarslys í Argentínu frá árinu 1970 þegar tvær lestir lentu saman á fullri ferð og 200 manns létust.

Lestarkerfið í landinu þykir úr sér gengið og síðustu mánuði hafa mörg alvarleg slys átt sér stað.

Í nóvember síðastliðnum ók lest á skólarútu með þeim afleiðinum að átta stúlkur létu lífið. - gb, þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×