Erlent

Neita sök og ætla að verjast

Í Guantanamoflóa Enn eru nærri 170 fangar í búðunum og hafa sumir verið þar í meira en áratug, án þess að koma fyrir dómara. nordicphotos/AFP
Í Guantanamoflóa Enn eru nærri 170 fangar í búðunum og hafa sumir verið þar í meira en áratug, án þess að koma fyrir dómara. nordicphotos/AFP
Í herstöð Bandaríkjamanna á Kúbu hefjast í dag réttarhöld yfir fimm föngum sem sakaðir eru um að hafa skipulagt árásirnar á Bandaríkin þann 11. september 2001.

Í yfirheyrslum, sem að hluta fóru þannig fram að fangarnir voru beittir pyntingum, hafa þeir allir játað sekt og jafnvel sagst stoltir af afrekinu. Lögmaður eins þeirra segist hins vegar telja að þeir ætli allir að lýsa sig saklausa í dag og verjast þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að þeir taki ekki mark á dómstólunum og kjósi hvort eð er dauðann.

„Hann hefur engan hug á því að lýsa sig sekan," sagði lögmaðurinn, Jim Harrington, um skjólstæðing sinn, Ramzi Binalshibh. „Ég held að enginn þeirra ætli að lýsa sig sekan."

Réttarhöld í máli þeirra voru langt komin í undirbúningi sumarið 2008 þegar Barack Obama Bandaríkjaforseti reyndi að fá fangana flutta til Bandaríkjanna þar sem þeir kæmu fyrir borgaralega dómstóla eins og aðrir sakamenn. Obama fékk ekki stuðning til þess á þingi, en fyrirkomulagi dómnefnda á Kúbu var breytt nokkuð. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×