Viðskipti erlent

Barclays bankinn í rannsókn vegna al-Thani fléttu

Rannsókn er hafin á viðskiptum Barclays bankans í Bretlandi við al-Thani fjölskylduna í Katar en þessi viðskipti eru hliðstæð þeim sem Kaupþing átti við einn af meðlimum þessarar fjölskyldu korteri fyrir hrunið 2008.

Í breskum fjölmiðlum kemur fram að fjármálaeftirlit Bretlands sem og efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar eru að rannsaka kaup al-Thani fjölskyldunnar á hlutabréfum í Barclays fyrir rúmlega 6 milljarða punda eða 1.200 milljarða króna árið 2008.

Rannsóknin beinist m.a. að því hvort bankinn hafi lánað al-Thani fjölskyldunni fyrir þessum kaupum en slíkt er brot á markaðsreglum í bresku kauphöllinni.

Í frétt Financial Times er þessum viðskiptum líkt við svipuð kaup eins af al-Thani fjölskyldunni á hlutafé í Kaupþingi í september árið 2008 en þau námu 25 milljörðum kr. eða 5% af hlutafé bankans. Þau viðskipti eru til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara hérlendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×