Handbolti

Ágúst tekur við SönderjyskE

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Stefán
Ágúst Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs SönderjyskE í Danmörku.

Þetta var tilkynnt á vef félagsins í dag en Ágúst hefur í vetur verið þjálfari Gróttu í 1. deildinni. Hann starfaði sem þjálfari norska liðsins Levanger frá 2009 til 2012.

Fram kemur að það verði hlutverk Ágústs að stýra bæði aðalliði félagsins sem og að hafa yfirumsjón með afreksþjálfun ungra leikmanna. Þá mun hann einnig stýra samstarfi við yngri flokka félagsins.

Fram kemur að Ágúst hafi mikla reynslu sem þjálfari en hann hefur að auki þjálfað yngri landsliðs hér á landi sem og meistaraflokk karla og kvenna hjá félögum eins og Gróttu og Val.

Ekki er tekið fram hvort að starf Ágústs sem landsliðsþjálfari breytist en gera má ráð fyrir því að hann haldi áfram að sinna þeim skyldum samhliða starfi sínu í Danmörku.

SönderjyskE er í níunda sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með sex stig eftir sextán leiki. Annar íslenskur þjálfari er að störfum í deildinni en Óskar Bjarni Óskarsson þjálfar nú Viborg, sem situr í þriðja sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×