Handbolti

Alexander enn í miklu basli með öxlina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli
Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari segir að það hafi verið talsvert púsluspil að velja íslenska landsliðshópinn fyrir tvo mikilvæga leiki gegn Slóveníu í undankeppni EM 2014.

Landsliðshópurinn, sem er talsvert breyttur frá hópnum sem fór á HM í Spáni í janúar, var valinn í dag og má lesa um það hér.

Einn þeirra sem fór ekki til Spánar en er í hópnum nú er Alexander Petersson. Hann gaf ekki kost á sér í verkefnið vegna langvarandi meiðsla í öxl en hefur engu að síður spilað reglulega með félagsliði sínu, Rhein-Neckar Löwen.

„Alexander er ekki enn heill heilsu og mun nota sumarið til að vinna í sínum málum. Hann hefur verið á vissum afslætti hjá sínu félagsliði og ekki æft jafn mikið og aðrir leikmenn," sagði Aron í samtali við Vísi í dag.

„En á meðan hann er að spila með sínu félagsliði, eins og hann hefur gert, vill maður að hann spili líka með landsliðinu. Við erum með mjög færa sjúkraþjálfara og lækna í okkar teymi og ekkert því til fyrirstöðu að hann verði með okkur í tengslum við þessa leiki."

Alexander hefur verið að glíma við þrálát meiðsli í öxl og hefur einnig verið óttast um að þau gætu jafnvel bundið enda á feril hans. Aron hefur skilning á því.

„Meiðslin hafa ágerst talsvert síðastliðið ár enda mikið álag á handboltamönnum sem eru í fremstu röð með bæði landsliði sínu og félagsliði. Vonandi tekst honum að finna út úr þessu í sumar."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×