Körfubolti

Reiknar ekki með Threatt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jay Threatt í leiknum á föstudagskvöldið.
Jay Threatt í leiknum á föstudagskvöldið. Mynd/Vilhelm
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, reiknar ekki með því að Bandaríkjamaðurinn Jay Threatt verði með liðinu gegn Stjörnunni í kvöld.

Snæfell og Stjarnan mætast í þriðja skipti í undanúrslitaeinvígi liðanna í Domino's-deild karla í Stykkishólmi í kvöld. Hvort lið hefur unnið einn leik en þrjá sigra þarf til að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu.

„Á von á þéttri mætingu í kvöld. Ég vona að okkar fólk fylli kofann og það verði lítið pláss fyrir Stjörnuna," sagði Ingi Þór í samtali við Vísi.

Smekkfullt var í Hólminum þegar Snæfell vann oddaleikinn gegn Njarðvík í átta liða úrslitunum en finna mátti auð sæti í fyrsta leiknum gegn Stjörnunni. Ótrúlegt má telja að það verði uppi á teningnum í kvöld.

Jay Threatt, stoðsendingakóngur deildarinnar, meiddist í leik liðanna í Garðabæ á föstudagskvöldið. Threatt fór úr tálið en ekki er um brot að ræða.

„Hann er betri í dag en í gær og enn betri enn á laugardaginn. Það verður bara að ráðast hvort hann verði með," segir Ingi Þór sem reiknar ekki með Threatt.

„Hvort sem hann verður með eða ekki þá er hann ekki heill heilsu. Ég reikna ekki með honum. Ég treysti bara þeim strákum sem fyrir eru. Þeir verða að stíga fram," segir Ingi Þór.

Auk Threatt glímir Hafþór Ingi Gunnarsson við hnémeiðsli. Hann verður þó klár í slaginn í kvöld að sögn Inga Þórs.

Leikur Snæfell og Stjörnunnar verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld. Útsendingin hefst klukkan 19 og leikurinn fimmtán mínútum síðar.


Tengdar fréttir

Myndi frekar kaupa aukamiða í lottóinu

Jay Threatt, leikmaður Snæfells, meiddist undir lok leiks síns liðs gegn Stjörnunni í Ásgarði í gær og missir af næsta leik í undanúrslitarimmu liðanna.

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - Snæfell 90-86

Stjarnan jafnaði undanúrslitaeinvígið á móti Snæfelli með því að vinna fjögurra stiga sigur á Snæfelli, 90-86, í öðrum leik liðanna í baráttunni um sæti í úrslitaeinvígi Dominos-deildar karla í körfubolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×