Viðskipti erlent

Grikkir tapa þriðjungi af ráðstöfunartekjum sínum

Nýjar tölur frá hagstofu Grikklands, ELSTAT, sýna að laun í Grikklandi hafa almennt lækkað um 22% á síðustu þremur árum eða frá því að skuldakreppa þeirra hófst. Þegar 10% verðbólgu á tímabilinu er bætt við hafa Grikkir tapað um þriðjungi af ráðstöfunartekjum sínum á þessum tíma.

Í frétt um málið á Reuters segir að þessi samdráttur í tekjum Grikkja hafi valdið því að einkaneysla í landinu hefur dregist saman um 16% frá árinu 2009. Það er þetta fall í einkaneyslu sem einkum skýrir mikinn samdrátt í landsframleiðslu landsins undanfarin ár. Í ár er búist við 4,5% samdrætti. Einkaneyslan stendur undir um 75% af landsframleiðslunni og er það hæsta hlutfallið meðal landa á evrusvæðinu.

Það sem gerir stöðuna enn verri er hið mikla atvinnuleysi sem ríkir í Grikkland en það nemur yfir 25% í dag. Þar að auki hafa grísk stjórnvöld skorið niður velferðarstyrki sína um 15 og á árunum 2010 til 2012 voru skattar á heimili landsins auknir um 17%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×