Körfubolti

Byrjar einvígin alltaf frábærlega

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Árni var sjóðandi heitur í Röstinni á miðvikudagskvöldið.
Jóhann Árni var sjóðandi heitur í Röstinni á miðvikudagskvöldið. Mynd/Vilhelm
Jóhann Árni Ólafsson átti frábæran leik með Grindavík þegar liðið vann 24 stiga sigur á Stjörnunni, 108-84, í fyrsta leik úrslitaeinvígis Dominos-deild karla í körfubolta. Jóhann Árni skoraði 26 stig í leiknum og hitti úr 60 prósent skota sinna.

Það efast enginn um það að fyrsti leikur í einvígi í úrslitakeppni er gríðarlega mikilvægur og Jóhann Árni hefur gefur tóninn í öllum einvígum Grindavíkur í úrslitakeppninni í ár. Fyrir vikið hafa Grindvíkingar fagnað öruggum sigri í leik eitt í einvígunum þremur.

Jóhann Árni var með 23 stig (77 prósent skotnýting) í fyrsta leik átta liða úrslitanna á móti Skallagrími, 28 stig (63 prósent skotnýting) í fyrsta leik undanúrslitanna á móti KR og svo 26 stig í fyrrakvöld (60 prósent skotnýting).

Jóhann Árni skoraði 17 af 26 stigum sínum á síðustu fimmtán mínútum leiksins á móti Stjörnunni á miðvikudagskvöldið en Grindavík vann lokakafla leiksins 50-26 og breytti stöðunni úr 58-58 í 108-84.

Það er gríðarlega mikill munur á tölfræði Jóhanns Árni í leik eitt í einvígum úrslitakeppninnar miðað við tölfræði hans í hinum leikjunum í úrslitakeppninni. Hann er þannig að skora 16,7 stigum meira í leik í fyrsta leik, er með 20,6 fleiri framlagssstig í leik og 32,6 prósent betri skotnýtingu. Hér til hliðar má sjá samanburð á frammistöðu Jóhanns Árni í úrslitakeppninni í ár.

Þetta er annað skiptið sem Jóhann Árni kemst í lokaúrslitin tvö ár í röð því hann afrekaði það líka sem leikmaður Njarðvíkur 2006-2007. Jóhann Árni vann þá titilinn fyrra árið en varð að sætta sig við silfur árið eftir þrátt fyrir að Njarðvík hafi unnið fyrsta leikinn í úrslitaeinvíginu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×