Viðskipti erlent

Búðarþjófur ráðinn til verslunar eftir að hafa rænt hana tuttugu sinnum

Verslanakeðjan One Stop á Bretlandseyjum hefur ráðið búðarþjóf í vinnu eftir að hann hafði rænt eina af verslunum keðjunnar í Sunderland tuttugu sinnum. Alls hafði þessi þjófur kostað One Stop jafnvirði yfir sex milljónir króna.

Í frétt um málið í breska blaðinu The Sun segir að þjófurinn sem hér um ræðir, hinn rúmlega fertugi Kevin Bates, hafi verið orðinn sérfræðingur í öryggisráðstöfunum One Stop eftir alla þessa þjófnaði.

Eftir að hann var gripinn síðast með fulla vasa af vörum í Sunderland s.l. haust skrifaði hann One Stop bréf og baðst afsökunar á athæfi sínu. Jafnframt bað hann í hálfkæringi um starf hjá verslunarkeðjunni. One Stop tók hann á orðinu og taldi að hann gæti komið að góðum notum við að endurbæta þjófavarnir sínar.

Sá böggull fylgir skammrifi fyrir One Stop að Kevin Bates á eftir að afplána megnið af nýlegum fjögurra ára fangelsisdómi sínum. Hann verður því One Stop ekki innanhandar í bráð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×