Hafin eru réttarhöld yfir fimm yfirmönnum franska fyrirtækisins PIP vegna ónýtra brjóstapúða. Réttarhöldin eru sögð ein af þeim stærstu í sögu Frakklands, en yfir fimm þúsund konur taka þátt í málsókninni.
Meðal ákærðu er Jean-Claude Mas, stofnandi og fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, en hann er sakaður um að hafa látið setja iðnaðarsílikon í púðana. Hefur það gert það að verkum að margir púðanna hafa lekið, og eru hin meintu svik sögð hafa áhrif á um 300 þúsund konur í 65 löndum.
Réttarhöldin fara fram í borginni Marseille, en þau voru flutt úr dómshúsinu í ráðhúsið vegna fjölda stefnenda og lögmanna þeirra.
Lokað þinghald hér á landi
Hér á landi hafa konur stefnt Jens Kjartanssyni lýtalækni vegna notkunar púðanna. Ekki er um hópmálsókn að ræða heldur nokkrar aðskildar málsóknir. Saga Ýrr Jónsdóttir fer með mál nokkurra kvennanna.
Saga vildi sem minnst tjá sig um þinghaldið sem nú stendur yfir, en það er lokað. Aðspurð um áhrif niðurstöðu frönsku réttarhaldanna segir Saga erlenda málið geta hjálpað.
„Það munu koma fram upplýsingar um starfsemi fyrirtækisins sem maður hefur ekki aðgang að hérna þannig að auðvitað verður fylgst með því. Svoleiðis hjálpar mjög mikið.“
Talið er að réttarhöldin í Marseille standi til 17. maí.