Viðskipti erlent

FIH bankinn notaði huldufélag til að leyna miklu tapi á fasteignalánum

FIH bankinn notaði huldufélag til þess að leyna miklu tapi sínu á fasteignalánum sínum á síðustu árum.

Í dönskum fjölmiðlum kemur fram að þessari upplýsingar hafi komið í ljós eftir að bankasýsla Danmerkur yfirtók ónýt og léleg fasteignalán frá bankanum að nafnvirði um 17 milljarða danskra króna í fyrra.

FIH bankinn mun hafa notað þetta huldufélag til þess að bjóða í eignir sem bankinn setti á nauðungaruppboð og lágmarka þannig tap bankans af þessum eignum. Fram kemur að huldufélagi þessu hafi verið haldið gangandi af FIH bankanum þrátt fyrir mikið tap þess og blóðrauðar tölur í bókhaldinu.

Bankasýsla Danmerkur gerir þá kröfu að huldufélagið, sem heitir A/S af 14/6 1995, verði skráð sem dótturfélag FIH bankans. Við það myndi slæm fjárhagsstaða bankans versna enn frekar en orðið er.

Eins og fram hefur komið í fréttum mun Seðlabanki Íslands sennilega tapa yfir helmingi af þeim 5 milljörðum danskra króna sem Seðlabankinn átti að fá fyrir söluna á FIH bankanum. Söluverðið var m.a. bundið við gengi FIH fram til ársloka 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×