Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Valur 22-26 | Oddaleikur á mánudag

Jón Júlíus Karlsson í Mýrinni skrifar
Mynd/Valli
Valur lagði Stjörnuna af velli í fjórða leik liðana í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í N1 deild kvenna, 22-26. Valur knúði þar með fram oddaleik í einvígi liðana um að komast í úrslitaleikinn.

Valur byrjaði leikinn betur og komst í 1-4 snemma leiks. Valskonur greinilega staðráðnar í að jafna metin í einvígi þessara liða. Stjarnan komst hins vegar fljótt aftur inn í leikinn og jafnaði metin í stöðunni 5-5. Stjarnan skoraði fjögur mörk í röð og komst í 7-5 áður en Valur tók við sér. Staðan í hálfleik 9-11 fyrir Val.

Valskonur byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og eftir 10 mínútna leik í seinni hálfleik var staðan 10-15 fyrir Val. Stjarnan gafst hins vegar ekki upp og náði að vinna sig aftur inn í leikinn. Þegar skammt var eftir munaði aðeins tveimur mörkum á liðunum en Valur náði að innsigla góðum sigri. Liðin munu því mætast í hreinum úrslitaleik á mánudag um sæti í úrslitum.

Hrafnhildur Skúladóttir var markahæst í liði Vals en hún skoraði 7 mörk. Karólína Lárusdóttir skoraði sex mörk líkt og Dagný Skúladóttir. Hjá Stjörnunni skoraði Jóna Margrét Ragnarsdóttir 7 mörk. Sunneva Einarsdóttir varð 12 skot hjá Stjörnunni og Guðný Jenný Ásmundsdóttir varð 10.

Hrafnhildur: Leystum varnarleik Stjörnunnar vel

„Við vorum ekki tilbúnar til að fara í sumarfrí. Það er rok og rigning úti og ekki fer maður út að ‘tana’ þannig að við höfum ekkert að gera í sumarfrí strax,“ sagði Hrafnhildur Skúladóttir eftir sigur Vals gegn Stjörnunni í dag.

„Ég er svakalega ánægð með þennan sigur. Þetta er æðislegt. Við vorum miklu betri í þessum leik og hefðum átt að vinna stærra. Við vorum líklega með svona 10 stangarskot og mjög óheppnar.“

Valur hafði yfirhöndina í síðari hálfleik en Stjarnan náði að vinna sig inn í leikinn þegar skammt var eftir. „Stjarnan náði að minnka muninn niður í tvö mörk þegar lítið var eftir en mér fannst á því augnabliki eins og að við hefðum átt að vera búnar að klára leikinn. Við vorum að fá góð færi en Stjarnan í bölvuðu basli,“ segir Hrafnhildur sem segir að leikur Valsliðsins hafi verið góður í dag.

„Það var miklu meiri hreyfanleiki á liðinu en í fyrstu leikjunum og við leystum vel varnarleikinn hjá Stjörnunni. Þær hafa verið duglegar að klippa út og eyðileggja kerfin hjá okkur. Við höfum verið í basli með það. Það voru fleiri að skila sínu í dag en í fyrstu tveimur leikjunum og það skipti sköpum. Ef við spilum svona á mánudag þá munum við vinna.“

Rakel Dögg: Gerum mistök á mikilvægum augnablikum

„Ég er mjög spæld. Við ætluðum að klára þetta einvígi í dag og fara í úrslitin,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir eftir ósigur Stjörnunnar gegn Val í dag.

„Við vorum einfaldlega ekki með svör við varnarleiknum hjá Va. Við vorum ekkert hissa að þær myndu spila 5+1 vörn og vorum búnar að undirbúa okkur fyrir það. Þetta var hins vegar ekki að ganga upp og hittum á lélegan dag. Sóknarleikurinn var of hægur og við vorum að gera mistök á mikilvægum augnablikum í leiknum. Þó að vörnin hafi verið fín inn á milli þá vorum við að fá á okkur of mörg klaufamörk.“

Rakel segir að hún sjálf hafi verið slök í dag og að hún og félagar hennar hjá Stjörnunni þurfi að eiga toppleik á mánudag. „Við þurfum að fara yfir þennan leik og finna lausnir. Valur mun spila áfram þessa vörn í næsta leik. Ég er persónulega á núll hraða og ég þarf að skoða mína frammistöðu. Við þurfum að eiga okkar besta leik ef við ætlum að vinna þetta lið. Það bjuggust allir við auðveldum 3-0 sigri hjá Val en við höfum heldur betur staðið í þeim. Við höfum trú á því að við getum unnið leikinn á mánudag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×