Handbolti

Nantes komið í úrslit | Gunnar Steinn skoraði tvö

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
MYND/HEIMASÍÐA HBC NANTES

Nantes er komið í úrslit EHF-bikarsins eftir góðan 26-20 sigur á danska liðinu Team Tvis Holstebro en úrslitahelgi EHF-bikarsins er leikin í Nantes.

Nantes voru gríðarlega vel studdir fyrir framan fulla höll. Liðið lék frábæra vörn og náði hægt en örugglega að vinna á danska liðinu og vann að lokum öruggan sigur.

Nantes var 11-9 yfir í hálfleik en Holstebro réð ekkert við varnarleik franska liðsins framan af seinni hálfleik sem gerði gæfumuninn.

Gunnar Steinn Jónsson skoraði tvö mörk fyrir Nantes en Spánverjinn Rivera Folch var markahæstur með átta mörk. Landi hans Jorge Maqueda skoraði fimm mörk. Magnus Bramming var markahæstur hjá Holstebro með fimm mörk.

Nantes mætir annað hvort Göppingen eða Rhein-Neckar Löwen í úrslitum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×