Handbolti

Meistaraflokkur KR í handbolta karla endurvakinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vinstri: Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður KR, Arnar Jón Agnarsson og Jón Þór Víglundsson formaður handknattleiksdeildar.
Frá vinstri: Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður KR, Arnar Jón Agnarsson og Jón Þór Víglundsson formaður handknattleiksdeildar. Mynd/Valli

Arnar Jón Agnarsson verður þjálfari meistaraflokks karla hjá KR í handbolta sem mun tefla fram liði í 1. deild karla á næstu leiktíð í fyrsta skipti í átta ár.

KR-ingar hafa ekki starfrækt meistaraflokk frá árinu 2005 þegar liðið sleit samstarfi sínu við Gróttu. KR starfrækti síðast meistaraflokk eitt síns liðs árið 1996. Á blaðamannafundi í Vesturbænum í dag kom fram að nú hafi verið tími til kominn að stíga skrefið á ný. Þar hafi vegið þyngst að yngri iðkendur hafi vantað fyrirmyndir.

Um 180 iðkendur eru í yngri flokkum KR en starfsemi þeirra var endurvakin árið 2005. Var Viggó Sigurðsson meðal annars ráðinn til starfa hjá yngri flokkunum í vetur. Þegar komið er upp í 3. flokk hefur vandamál gert vart við sig. Enginn 2. flokkur hefur verið starfræktur frekar en meistaraflokkur og leikmenn í þeim aldursflokki því horfið á braut.

Arnar Jón sagðist spenntur fyrir verkefninu á fundinum.

„Það á að byggja þetta hægt og rólega upp. Ég reikna með að tala við gamla og góða KR-inga og skora á þá að koma aftur," sagði Arnar Jón. Arnar Jón er fæddur árið 1981 og hefur meðal annars spilað með Stjörnunni og Haukum á ferli sínum. Þá spilaði hann um tíma í Þýskalandi.

Arnar Jón spilaði þó ekkert á nýafstaðinni leiktíð. Hann sagðist ekki útiloka það að spila með liðinu en hugmyndin væri fyrst og fremst að byggja liðið á KR-ingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×