Íslenski boltinn

Afríka er brandari sem er löngu búinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kjartan Atli í leik með Stjörnunni.
Kjartan Atli í leik með Stjörnunni. Mynd/Daníel

Kjartan Atli Kjartansson, leikmaður körfuboltaliðs Stjörnunnar og knattspyrnuliðs Álftaness, segir að leikmenn neðri deilda knattspyrnunnar kvíði því að mæta liði Afríku.

Þetta segir hann í pistli sem birtist á vefsíðunni 433.is og má lesa í heild sinni hér. Hann hefur pistilinn á þessum orðum:

„Ég ætla að segja það sem mörgum leikmönnum í neðri deildunum langar að segja: Þessi brandari með knattspyrnulið Afríku er löngu búinn. Málið er fullreynt og þeir eru, því miður, búnir að brenna langflestar brýr að baki sér. Óheiðarleg framkoma, grófur leikur og endalausar ásakanir um kynþáttafordóma gera leikina gegn Afríku þá leiki sem marga leikmenn í neðri deildunum kvíðir mest fyrir.“

Kjartan Atli lék með liði Álftaness gegn Afríku á Leiknisvellinum fyrr í þessari viku. Álftanes vann, 5-0, og Kjartan Atli skoraði eitt markanna eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Hann segir leikmenn stundum ekki vita hvort þeir beinin í löppunum muni haldast heil eftir 90 mínútna leik gegn Afríku. En það versta við að spila gegn liðinu sé framkoma leikmannanna.

„Dónaskapurinn er yfirgengilegur. Um leið og eitthvað fer ekki samkvæmt plani þjálfara liðsins verður allt vitlaust.“

„Leikmenn Afríku grípa svo gjarnan í orðið „kynþáttafordómar“. Það er trompið sem þeir hafa uppi í erminni; ef dómarinn dæmir eitthvað á þeirra hlut, eða ef andstæðingur segir eitthvað við þá, þá eru það kynþáttafordómar. Þvílík og önnur eins gjaldfelling á annars mikilvægu hugtaki. Víða um heim þurfa milljónir að líða fyrir kynþáttafordóma á degi hverjum. Að ætla að grípa til þessa hugtaks í knattspyrnuleik í neðri deildunum, þegar dómarinn dæmir eitthvað gegn þeim, er sorglegt í meira lagi.“

Pistill Kjartans Atla í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×