Viðskipti erlent

Langtímaatvinnuleysi í sögulegu hámarki í ESB

Langtímaatvinnuleysi í löndunum innan Evrópusambandsins hefur aldrei verið meira í sögunni. Nær helmingur af þeim 26,5 milljónum manna sem eru atvinnulausir innan sambandsins, eða 45%,  hafa verið svo í eitt ár eða lengur.

Fjallað er um málið á viðskiptavef Berlingske Tidende. Þar segir að þeim sem teljast langtímaatvinnulausir hafi fjölgað verulega á síðastliðnu ári. Þannig bættust um 700.000 manns í þennan hóp á seinnihluta ársins í fyrra.

Berlingske ræðir við Erik Björsted greinanda hjá Efnahagsráði dönsku verkalýðshreyfingarinnar um málið. Hann segir að langtímaatvinnulausir séu ekki spennandi kostur fyrir vinnuveitendur og eiga því í meiri erfiðleikum en aðrir að koma sér út úr þeirri stöðu. Raunar eykst hættan á að þeir detti alveg út af vinnumarkaðinum því lengur sem þeir eru atvinnulausir.

“Ef slíkt gerist mun atvinnuleysi bíta sig fast innan ESB og verða mikið á næstu árum. Slíkt mun skaða vöxt, velferð og fjárlög í viðkomandi löndum,” segir Björsted.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×