Viðskipti erlent

Sparnaðaráætlun SAS virkar, tapið minnkar milli ára

Sparnaðaráætlun SAS sem sett var í gang fyrir áramótin hefur borið þann árangur að tap félagsins hefur minnkað milli ára. Þetta kemur fram í yfirliti um uppgjör SAS fyrir annan ársfjórðung á yfirstandandi rekstrarári félagsins sem birt var í morgun.

Tapið á ársfjórðungnum nam 306 milljónum sænskra kr., eða um 5,6 milljörðum kr., fyrir skatta sem er mun betri árangur en á sama tímabili í fyrra þegar tapið nam 734 milljónum sænskra kr.

Í frétt um málið á vefsíðunni e24.no er haft eftir Rickard Gustafson forstjóra SAS að hagnaður verði af rekstri félagsins fyrir árið í ár ef sparnaðaráætlunin gengur eftir.

Í fréttum fyrir áramótin kom fram að SAS rambaði á barmi gjaldþrots ef ekki yrði gripið til róttækra ráðstafana. Þær fólu m.a. í sér miklar uppsagnir meðal starfsfólks og launalækkanir auk sölu á eignum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×